Íslenska karlalandsliðið í Íshokkí hefur keppni á HM í Rúmeníu á morgun

Íslenska karlalandsliðið í íshokkí hefur keppni á HM í Galati í Rúmeníu á morgun. Ísland mætir Spáni í fyrsta leik en Ísland hafnaði í fimmta sæti á mótinu í fyrra en Spánn í öðru sæti. Leikurinn á morgun hefst kl 13.30 á íslenskum tíma en útsendinguna frá verður vonandi hægt að finna hér þegar leikurinn hefst.

Í riðlinum eru auk Íslands að þessu sinni: Rúmenía, Spánn, Belgía, Serbía og Ástralía. Rúmenía og Spánn eru kannski fyrirfram talin sterkustu liðin en deildin er mjög jöfn og því erfitt að segja til um hverjir möguleikar Íslenska liðsins eru í ár. Ástralía kom upp úr 2. deild B en eru þó ekki langt frá öðrum þjóðum í riðlinum að styrkleika. Í íslenska liðið vantar fjölmarga leikmenn sem hafa verið lykilmenn í liðinu síðastliðin ár og má þar helst nefna Emil Alengard sem hefur verið burðarás liðsins en hann hefur lagt skautanna á hilluna og lagt fyrir sig þjálfun. Hins vegar hefur nú skapast rúm fyrir nýja kynslóð leikmanna sem hafa sýnt það með yngri landsliðum Íslands að þeir eru færir og því spennandi að sjá hvaða áhrif þessir leikmenn hafa á liðið.

SA á fjóra fulltrúa í íslenska liðinu: Ingvar Þór Jónsson fyrirliða liðsins, Andri Má Mikaelsson, Jóhann Má Leifsson og Sigurð Frey Þorsteinsson en hann spilar þar sitt þriðja HM frá áramótum þar sem hann var einnig í U-18 og U-20 liði Íslands. Við fylgjumst auðvitað spennt með og sendum jákvæða strauma til Galati, Áfram Ísland!