Kolbrún Garðarsdóttir og Hafþór Andri Sigrúnarson íshokkífólk SA árið 2019

Kolbrún og Haffi (mynd: Ási Ljós)
Kolbrún og Haffi (mynd: Ási Ljós)

Kolbrún María Garðarsdóttir og Hafþór Andri Sigrúnarson hafa verið valin íshokkíkona og íshokkíkarl SA fyrir árið 2019. Voru þau heiðruð um helgina í leikhléi SA og Reykjavíkur í Hertz-deild kvenna.

Kolbrún er 17 ára sóknarmaður í kvennaliði SA og landsliðskona Íslands í íshokkí. Þrátt fyrir ungan aldur er Kolbrún burðarrás í kvennaliði SA. Kolbrún hefur leikið með meistaraflokki kvenna frá 12 ára aldri. Kolbrún spilaði eitt tímabil við góðan orðstír í Bandaríkjunum þegar hún var fengin til liðs við eitt öflugasta skólalið landsins, Bishop Kearney, en liðið náði öðru sæti í skólakeppni á landsvísu. Kolbrún snéri aftur heim til SA eftir eitt tímabil erlendis til þess að klára menntaskóla þrátt fyrir mikinn áhuga erlendra félagsliða á því að fá hana í sínar raðir. Kolbrún hefur leikið einstaklega vel á árinu 2019 þar sem hún varð Íslandsmeistari með SA á árinu ásamt því að og var næst stigahæsti leikmaður deildarkeppninnar með 27 stig í 10 leikjum. Kolbrún vann bronsverðlaun með íslenska kvennalandsliðinu á Heimsmeistaramótinu í 2. deild B og var einnig valinn besti leikmaður íslenska liðsins á mótinu. Kolbrún hefur gefið af sér í þjálfun yngri flokka félagsins og er frábær fyrirmynd.

Hafþór er 22 ára sóknarmaður í liði SA Víkinga og landsliðsmaður Íslands í íshokkí. Hafþór spilaði stórt hlutverk í liði Víkinga sem urðu Íslandsmeistarar á árinu og hefur verið atkvæðamikill í sóknarleik liðsins síðustu ár. Þrátt fyrir að vera ekki eldri þá hefur Hafþór átt nokkuð magnaðan íshokkíferil. Hafþór spilaði sína fyrstu leiki í meistaraflokki aðeins 15 ára gamall og lét strax til sína taka í markaskorun. Hafþór flutti 16 ára til Noregs og spilaði þar með Sparta Sarpsborg en þaðan fór hann svo til Svíþjóðar og spilaði með IFK Ore í efstu deild U18. Þá lék hann tvö tímabil með Víkingum áður en hann hélt aftur til Svíþjóðar og spilaði eitt tímabil með Lenhovda IF í sænsku 3. deildinni. Síðastliðin tvö tímabil hefur Hafþór þá spilað með SA Víkingum og átt stóran þátt í velgengni liðsins á þeim því tímabili. Hafþór hefur starfað sem yfirþjálfari yngri flokka félagsins og skilað þar óviðjafnanlegu starfi og er frábær fyrirmynd í alla staði.

Skautafélag Akureyrar er stolt af að hafa þau Kolbrún og Hafþór í sínum röðum og óskar þeim innilega til hamingju með titlanna.