Krullunámskeið - danskur leiðbeinandi

Ef næg þátttaka fæst ætlar Krulludeildin að bjóða upp á námskeið fyrir krullufólk helgina 29.-30. ágúst.

Formaður Krulludeildar hefur samið við erlendan þjálfara um að koma til okkar í Skautahöllina á Akureyri helgina 29.-30. ágúst til að halda námskeið í krullu - ef næg þátttaka fæst. Nákvæmari tímasetningar liggja ekki fyrir á þessu stigi.

Umræddur þjálfari heitir Niels Siggard Andersen og var hann meðal annars þjálfari liðs Angelinu Jensen á hennar upphafsárum í keppni. Andersen hefur bæði leikið fyrir Danmörku og Noreg á EM og HM en hann bjó í tíu ár í Noregi. Þar spilaði hann í sigursælu liði Pouls Trulsens frá 2002 til 2005 en Trulsen er einn sigursælasti krullumaður Norðmanna. 

Endanleg ákvörðun um námskeiðið hefur ekki verið tekin en hún ræðst af áhuga félagsmanna. Þeir sem hafa áhuga þurfa að hafa samband við Hallgrím Valsson, formann Krulludeildar, strax. Þátttökugjaldi á námskeiðinu verður stillt mjög í hóf, líklegt að það verði um 3.000 krónur á mann - en það ræðst af þátttöku.

Það er því mjög mikilvægt að fá viðbrögð strax frá krullufólki - skráning og upplýsingar hjá Hallgrími í s. 840 0887 eða í netfangið hallgrimur [hjá] isl.is. Það krullufólk sem getur alls ekki mætt er einnig beðið um að láta vita til að sem fyrst verði ljóst hver möguleg þátttaka verður.