Kvennalið SA getur tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli á skírdag

Kvennalið SA getur tryggt sér Íslandsmeistaratitlinn í íshokkí á skírdag þegar liðið mætir Reykjavíð öðru sinní í Úrslitakeppninni. Leikurinn hefst kl. 16.45 í Skautahöllinni á Akureyri. SA vann fyrsta leikinn syðra með 4 mörkum gegn 1 en tvo sigra þarf til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. Frítt inn á leikinn. Mætum í rauðu og styðjum okkar lið til sigurs!

SA hafði mikla yfirburði í deildarkeppninni í vetur og vann alla deildarleikina. Meira jafnræði hefur orðið milli liðanna eftir því sem liðið hefur á veturinn svo búist var við hörku úrslitakeppni í ár. Sú varð einnig raunin í fyrsta leik úrslitakeppninnar í gærkvöld í Reykjavík. Fyrsta lotan var mjög jöfn og spennandi þar sem báðum liðum tókst að skapa sér góða færi en hvorugu liðinu tókst að skora. Hilma Bergsdóttir kom SA yfir í leiknum í annarri lotu þegar hún náði að setja frákast af skoti Evu Karvelsdóttur í markið. Harpa Kjartansdóttir jafnaði leikinn fyrir Reykjavík eftir vel útfærða sókn Reykjavíkur og staðan 1-1. Þegar um 3 mínútur lifðu annarar lotu komst Silvía Björgvinsdóttir inn í sendingu Reykjavíkur liðsins sem var í yfirtölu en Silvía komst þannig ein í gegnum vörn Reykjavíkur og setti pökkinn snyrtilega fram hjá Karítas í marki Reykjavíkur og kom SA í 2-1 forystu. Silvía var svo aftur á ferðinni öskotsstundu síðar þegar hún spólaði sig í gegnum vörn Reykjavíkur og þrumaði pekkinum uppí þaknetið og staðan orðin 3-1 SA í vil. Reykjavík náði ekki að skapa sér nægilega mörg né hættuleg færi í þriðju og síðustu lotunni en Elín Þorsteinsdóttir skoraði fjórða mark SA og gulltryggði sigurinn þegar hún speglaði skoti Sögu Sigurðardóttur í markið og lokatölur því 4-1.

SA fær því tækifæri á að vinna Íslandsmeistaratitilinn á heimavelli á fimmtudag en miðað við fyrsta leik liðanna má búast við hörkuleik og við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið til þess að mæta í Skautahöllina og styðja okkar lið til sigurs.