Kvennamóti í Skautahöllinni á Akureyri

Bergþóra með pökkinn og Vigdís sækir að. Ljósmynd: Jódís Eva
Bergþóra með pökkinn og Vigdís sækir að. Ljósmynd: Jódís Eva
Nú fer fram í Skauthöllinni á Akureyri kvennamót í íshokkí þar sem um 50 konur frá SA, SR og Birninum á öllum aldri keppa í þremur liðum.  Liðin þrjú sem sérstaklega voru sett saman fyrir þetta mót heita Svörtu snákarnir, Rauðu Tígranir og Hvítu hákarlarnir.  Hvert lið er skipað þremur línum, hver í sínum styrkleikaflokki, og þannig keppa saman línur af sama styrkleikaflokki allt mótið.  Með þessu móti næst að halda keppninni jafnri þrátt fyrir ólík getustig leikmanna.

Keppnin hófst í morgun með viðureign Tígranna og Hákarlanna sem lauk með 2 – 2 jafntefli.  Tígranir héldu svo beint áfram í næsta leik og mættu þar Snákunum og þar virtist fyrri leikurinn sitja í þeim því Snákarnir nældu sér í 4 – 2 sigur. Þriðji leikur var á milli Snákanna og Hákarlanna,  leikurinn var mjög jafn allan tímann en Snákarnir báru sigur úr býtum með því að skora tvö mörk án þess að Hákörlunum tækist að svara fyrir sig. 

Síðasti leikurinn fyrir hádegishlé var svo „re-match“ á milli Hákarlanna og Tígranna sem skildu jöfn í fyrstu viðureigninni.  Nú reyndi á þrekið því liðin voru að spila þriðja leikinn þennan morguninn og það varð fljótlega ljóst að það var meira eftir í tankinum hjá Tígrunum því þær sigruðu nokkuð örugglega 4 – 1. 

Fyrsti leikur eftir hlé var á milli Svörtu snákana og Rauðu tígranna og líkt og aðrar viðureignir á mótinu var allt í járnum og lauk leiknum með 1 - 1 jafntefli.  Með þessu jafntefli tryggðu snákarnir sér sigur á mótinu, en áttu þá ennþá eftir að mæta Hvítu hákörlunum í síðasta leik mótsins.  Snákarnir innsigluðu sigurinn með 4 - 1 sigri á Hákörlunum.