Með sigur inn í jólafríið

Mynd: Ási ljós
Mynd: Ási ljós

SA vann sanngjarnan 7:2 sigur á liði Reykjavíkur í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld og fara því með 16 stig í jólafríið gegn 5 stigum Reykjavíkur þegar eftir er að leika þrjá leiki í deildinni, þannig að Reykjavíkurliðið getur ekki náð þeim að stigum.

SA stúlkur komu ákveðnar og vel stemmdar til leiks í kvöld. Fyrsta mark leiksins átti Inga Rakel en það er jafnframt hennar fyrsta mark með liðinu. Stoðsendingu átti Kolbrún, en hún átti mjög góðan leik í kvöld. Reykjavík jafnaði ekki löngu síðar þegar þær voru einni fleiri eftir að Anna Karen hafði fengið brottvísun fyrir slashing. Undir lok lotunnar komst SA svo aftur yfir með marki frá Gunnborgu, stoðsending Katrín og Berglind. Þær komu svo grimmar inn í aðra lotuna og skoruðu þá fjögur mörk og má segja að þær hafi þar með gert út um leikinn. Það fyrsta var glæsilegt mark frá Gunnborgu, stoðsendingu átti Katrín. Svo átti Eva flott mark án stoðsendingar en í millitíðinni hafði Reykjavík náð að skora sitt annað mark. Næsta mark kom þegar SA var leikmanni fleiri en það átti Hilma með stoðsendingu frá Berglindi og Kolbrúnu. Lokamark lotunnar átti svo Sarah og enn átti Kolbrún stoðsendinguna. Lokamark leiksins kom svo í þriðju lotu. Það átti Berglind, stoðsendingu Eva og Gunnborg. 

Liðið stóð sig i heildina vel, ekki síst yngri stelpurnar. Kolbrún átti margar atlögur að marki Reykjavíkur en náði ekki að koma pekkinum inn. Stoðsendingarnar eru hins vegar ekki síður mikilvægar og hún átti þær þrjár. Hulda Sigurðardóttir stóð vaktina fyrir Sami Lehtinen sem er með karlalandsliðinu í Rúmeníu, og hún sagði að leikurinn hefði verið hraður og skemmtilegur, það hefði verið létt yfir stelpunum fyrir leikinn og það skilaði sér inn á ísinn. Þær hafi átt mjög góða endurkomu eftir síðasta leik. 

Mörk (stoðsendingar): Gunnborg 2 (1), Berglind 1 (2), Eva 1 (1), Inga 1, Hilma 1, Sarah 1, Kolbrún (3), Katrín (2)

Birta stóð í markinu og varði 21 skot.