Karfan er tóm.
Það voru þrír heimaleikir SA í Toppdeildunum í Skautahöllinni um helgina en liðin okkar tóku 6 stig úr leikjunum þremur og tryggðu bæði lið sér sæti í úrslitakeppnunum. Meistaraflokkur karla vann Fjölni á laugardag og kvennalið SA vann Fjölni í vítakeppni á laugardag en Fjölnir hafði betur í vítakeppni á sunnudag.
Meistaraflokkur karla mæti Fjölni á laugardag og vann 5-3 sigur eftir hörku íshokkíleik en Fjölnir var með undirtökin í fyrstu lotu og fram í aðra lotu þegar SA Víkingar jöfnuðu leikinn með marki Hafþórs Sigrúnarsonar. Fjölnir náði aftur forystu í leiknum í byrjun þriðju lotu en SA Víkingar komu til baka með frábæru coast to coast marki Orra Blöndal og Róbert Hafberg kom svo Víkingum yfir í leiknum skömmu síðar. Gunnar Arason og Unnar Rúnarson sigldu svo sigrinum heim með sínum mörkum en SA Víkingar tryggðu sér inn í úrslitakeppnina með sigrinum og eiga 6 stiga forskot á SR sem situr í öðru sæti deildarinnar.
Leikir SA og Fjölnis í Toppdeild kvenna á laugardag og sunnudag enduðu báðir í vítakeppni eftir jafntefli og framlengingu en þetta er þriðji leikur liðanna á þessu ári sem endar í vítakeppni. Fyrri leikur liðanna á laugardag var mjög hraður og spennandi en Fjölnir náði forystu þrisvar sinnum í leiknum og SA náði að jafna leikinn í þrígang svo staðan var 3-3 áður en farið var í framlengingu. Mörk SA í leiknum skoruðu þær Amanda Bjarnadóttir, Guðrún Ásta Velentine, og Kolbrún Björnsdóttir en Guðrún Ásta sem er nýorðin þrettán ára var að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. SA vann að lokum leikinn í vítakeppni með mörkum Kolbrúnar Björnsdóttur og Önnu Sonju Ágústsdóttur. Sunnudagsleikurinn var ekki síður spennandi og alls ekki hægari en Fjölnir var sterkari aðilinn framan af og fór náðu forystunni í fyrstu lotu. Silvía Björgvinsdóttir jafnaði leikinn í annarri lotu en þar við sat svo leikurinn endaði 1-1 og fór aftur í vítakeppni þar sem Fjölnir hafði betur að lokum með tveimur mörkum gegn einu. Fjölnir náði með sigrinum 3 stiga forskot á SA í deildarkeppninni en bæði lið eiga 3 leiki eftir svo lokaspretturinn í deildinni verður æsispennandi.