Naumt tap hjá Víkingum gegn HC Donbass – Tuxin Urda á morgun kl. 11.00 (streymi)

SA Víkingar eru búnir að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum í 3. umferð Evrópukeppninnar, fyrst gegn Kurbads Riga 9-2 (mörkin úr leiknum) í gær og svo gegn HC Donbass í dag 6-3. Víkingar geta þar með ekki farið í næstu umferð en mæta Txuri Urdin á morgun kl. 11.00 um 3. sætið í riðlinum.

Leikurinn í dag var spennandi fram á síðustu mínútur leiksins. Donbass skoraði fyrsta mark leiksins strax í byrjun leiks en Jussi Sipponen jafnaði strax í kjölfarið með góðu skoti af bláu línunni. Staðan var 1-1 eftir fyrstu lotu og SA Víkingar náðu forystunni í annarri lotu með marki frá Thomas Dant-Stuart. Donbass jafnaði metin um miðja lotuna og staðan var 2-2 eftir aðra lotu. Donbass setti mikla pressu á Víkinga í 3. lotu og náðu forystu snemma lotunnar. Kristján Árnason jafnaði metin fyrir Víkinga þegar 6. mínútur lifðu leiks. Donbass skoraði 2 mörk með stuttu millibili þegar skammt var eftir leiks og svo sjötta markið í tómt markið þegar Víkingar freistuðu þess að skora með því að bæta 6. Sóknarmanninum við.

Leikurinn á morgun verður sýndur á sama stað og venjulega en streymið má finna hér.