Naumt tap Víkingar vs Björninn 3:4

Úr leik Víkinga-Björninnn (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leik Víkinga-Björninnn (mynd: Elvar Pálsson)

Víkingar töpuðu í gærkvöld á heimavelli fyrir Birninum, lokatölur 3-4. Víkingar voru sterkari aðilinn framan af en misstu dampinn þegar á leið og Björninn gekk á lagið. Víkingar eru þó enn efstir í deildinni en forystan á Björninn hefur heldur rýrnað og er nú 5 stig. Að venju var leikurinn tekinn upp og er kominn upp á vimeo fyrir fólk til að skoða.

Fyrsta lotann var eign Víkinga en þeir byrjuðu leikinn með mikilli pressu og héldu Bjarnarmönnum í varnarsvæði sínu lengst af. Fyrsta mark leiksins skoruðu Víkingar á annari mínútu en það skoraði Andri Freyr Sverrison með góðu skoti eftir frábæran undirbúning Bens Dimarco sem stal pekkinum af Bjarnarmönnum og fann Andra einan framan við mark Bjarnarmanna. Bjarnarmenn náðu ágætis kafla í kjölfarið en lentu í refsivandræðum og voru einum færri í samtals 6 mínútur það sem eftir lifði lotunnar. Víkingar fengu mörg góð marktækifæri í fyrstu yfirtölunni en náðu ekki að nýta þau. Í öðru powerpalyinu kom loksins mark en það skoraði Ben Dimarco með hnitmiðuðu langskoti af stönginni og inn. Víkingar voru svo óheppnir að skora ekki þriðja markið en pökkurinn skall í stönginni úr ákjósanlegu marktækifæri og markmaður Bjarnarins varði að minnsta kosti tvisvar með naumindum.

Víkingar byrjuðu aðra lotu líkt og þá fyrri og fengu strax ágætis marktækifæri og héldu uppi góðri pressu. Ekkert benti til annars en Víkingar myndu sigla auðveldum sigri í höfn með frammistöðu sinni á þessum tímapunkti. Víkingar fengu snemma lotunnar brottrekstur og Bjarnarmenn sitt fyrsta powerplay í leiknum sem þeir líka nýttu. Markið  kom nánast upp úr þurru en Lars Foder snéri þá laglega af sér varnarmenn Víkinga bakvið markið og lagði pökkinn fallega upp á Hrólf Gíslason sem stóð óvaldaður framan við mark Víkinga. Hérna var um sannkallaðan vendipunkt að ræða því markið virtist gefa Bjarnarmönnum aukinn kraft og þeir komust strax í kjölfarið í dauðafæri og Víkingar fengu annan brottrekstur við að reyna stöðva það. Víkingar misstu annan mann af velli og léku því 3 á móti 5 leikmönnum Bjarnarins. Bjarnarmenn nýttu þetta vel og spiluðu sig í dauðafæri sem Brynjar Bergmann skoraði úr og Björninn búnir að jafna leikinn á mjög skömmu tíma. Bjarnarmenn voru sterkari aðilinn eftir þetta og fengu nokkur ákjósanlega marktækifæri á meðan Víkingar voru værukærir og gerðu sig seka um mikið af mistökum. Þegar 5 mínútur lifðu lotunnar buðu Víkingar Bjarnarmönnum upp á enn eitt powerplayið en það ættu menn að læra að varast því Bjarnarmenn nýttu það líkt og hin en markið skoraði Nicolas Antonoff með bylmingsskoti frá bláu línunni. Bjarnarmenn fengu svo á sig tvo brottrekstra undir lok lotunnar sem Víkingar nýttu illa á meðan Bjarnarmenn komust tvisvar einir í gegnum vörn Víkinga þó manni færri væru og auk þess vítaskot á síðustu sekúndu leikhlutans en náðu ekki að nýta færin. Staðan 3-2 fyrir Bjarnarmenn þegar gengið var til búningsherbergja.

Þriðja lotann var opin og skemmtileg en bæði lið fengu góð færi en markverðirnir vörðu vel. Leikurinn fór að mestu fram í sóknarsvæðunum en báðum liðum tókst að halda pekkinum þar þegar þangað var komið en skotin komu að mestu frá varnarmönnunum og sköpuðu usla. Lars Foder fékk besta færi Bjarnarins í fyrri hluta lotunnar en skaut í hliðarnetið úr þröngu færi. Jóhann Leifsson var einnig nálægt því að skora fyrir Víkinga eftir laglegt tádrag en inn vildi pökkurinn ekki. Fyrst mark lotunnar var skorað þegar 10 mínútur lifðu leiks en það skoruðu Víkingar en þar var á ferðinni nýliðinn Matthías Már Stefánsson með sitt annað mark í tveimur leikjum með góðu skoti upp í markhornið eftir barning framan við mark Bjarnarins. Víkingar héldu áfram að sækja og fengu tvö frábær marktækifæri í sömu sókn og Bjarnarmenn fengu brottrekstur við það sama. Víkingar fengu ágætt færi en besta færið fékk Rúnar F. Rúnarsson en Ómar í marki Bjarnarins kom langt út og varði vel. Bjarnarmenn fengu nokkru síðar dauðafæri en Rett Vossler varði fast skot frá Trausta Bergmann. Undir lok lotunnar fengu Víkingar dóm og Björninn fékk tækifæri á því að skora einum fleiri. Það gerðu þeir svo sannarlega en markið skoraði Bergur Einarsson með góðu úlnliðsskoti frá bláu línunni en þá voru um ein og hálf mínúta eftir á klukkunni. Víkingar freistuðu gæfunnar á lokamínútunni með 6 útileikmönnum og fengu góð færi án þess að skora og leikurinn endaði því 4-3 fyrir Birninum. 

Það má segja að Víkingar hafi kastað frá sér leiknum eftir góða byrjun en raunin er sú að Bjarnarmenn voru ákveðnari þegar á leið og ljóst að þeir ætla ekki að gefa sæti í úrslitakeppninni frá sér svo auðveldlega. Spilið hjá Birninum er ekki áferðafallegt en það er áhrifaríkt með sterkann varnarleik að vopni. Powerplayið hjá Bjarnarmönnum er einnig mjög gott um þessar mundir með þá Nicolas Antonoff og Lars Foder í aðalhlutverkum en þeir geta refsað fljótt ef menn eru ekki á tánum. Það sama má þó segja um Powerplayið hjá Víkingum en það virðist vera að batna en Víkingar sköpuðu mikið af góðum færum í því í gærkvöld þó mörkin hafi ekki verið mörg í þetta skiptið. Línan með Andra, Jóa og Matthíasi var kannski ljósi punkturinn í leik liðsins í kvöld en þeir sköpuðu mikið og áttu allir góðann leik og með smá heppni hefðu þeir getað skorað mun fleiri mörk. Víkingar áttu sem betur fer forystu á hin liðin fyrir leiki gærdagsins og eru því enn á toppi deildarinnar en eru þó ekki enn búnir að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni. Næsti leikur Víkingar er á útivelli gegn Birninum 10. febrúar en það er jafnframt síðasta leikur þessara liða á tímabilinu.

Að venju var leikurinn tekinn upp og er kominn upp á vimeo fyrir fólk til að skoða.