Reykjavíkurleikarnir - Dagur 2

Keppni laugardagsins hófst klukkan 13 í löngu prógrammi hjá Advanced Novice stelpunum þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir og Júlía Rós Viðarsdóttir fóru á kostum og stóðu sig gríðar vel, slógu þær báðar persónuleg stigamet og bætti Júlía sig um ein 7,7 stig. Í lok harðrar og skemmtilegrar keppni endaði Júlía Rós í 2. sæti með 49,40 stig og samanlagt 77,91 stig og jafnframt fyrst af Íslensku skauturunum en í 1. og 3. sæti voru erlendir keppendur. Freydís Jóna stóð sig einnig glæsilega og hafnaði í 7. sæti með 41,32 stig og samanlagt 63,76 stig. Þar með luku þær keppni og óskum við þeim stöllum innilega til hamingju með glæsilegan árangur.

Því næst hófst æsispennandi keppni í stuttu prógrami í Junior Ladies þar sem SA átti tvo keppendur þær Aldísi Köru Bergsdóttir og Mörtu Maríu Jóhannsdóttur. Þær stöllur skautuðu einstaklega vel og endaði dagurinn með því að Marta María er í 2. sæti með 36,97 stig og Aldís Kara kemur fast á hæla hennar í því 3. með 36,33 stig. Með þessu eru þær stöllur efstar af Íslensku skauturunum og halda þær áfram keppni með löngu prógrami á morgun sunnudag.

Þar með er upp talin þátttaka LSA á mótinu á laugardag en einnig var keppni í Junior Men þar sem tveir strákar tóku þátt, annar frá Ástralíu og hinn frá Chines Taipei. Strax á eftir hófst lokakeppni dagsins í Senior Ladies þar sem Ísland átti þrjá keppendur.

Óskum við öllum til hamingju með glæstan árangur í dag og góðs gengis á morgun. Með fylgja myndir frá verðlaunaafhendingu í Advanced Novice.

Advaced Novice