SA og SA í úrslitum kvenna

Ásgrímur Ágústsson tók myndina.
Ásgrímur Ágústsson tók myndina.

Úrslitin í meistaraflokki kvenna hófust í kvöld þegar liðin okkar, Ynjur og Ásynjur mættust í flottum hokkíleik hér á heimavelli beggja liða sem lauk með sigri Ynja, 6 - 4. Þessi árangur félagsins að eiga bæði lið í úrslitum er einstakur. Bæði lið báru höfuð og herðar yfir sunnanliðin í vetur og var það sérstaklega sætt þar sem engar lánsreglur voru í gildi og teflt var fram tveimur algerlega aðskildum liðum.

Það sýnir mátt félagsins og megin að geta teflt fram tveimur liðum í þessum styrkleikaflokki og sýnir hve mikil uppbyggingin í kvennahokkí hefur raunverulega verið á síðustu árum, með hana Söruh Smiley, að öðrum ólöstuðum, í fararbroddi.

Ásynjur hafa verið sterkari í vetur og tryggðu sér deildarmeistaratitilinn á dögum og þar með heimaleikjaréttinn (jeiii). Ynjur hafa hins vegar farið vaxandi og sýndu í kvöld hvers þær eru megnugar. Næsti leikur verður á þriðjudaginn kl. 19:30 og þá geta Ynjurnar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en það er næsta víst að Ásynjur munu ekki gefa hann eftir svo auðveldlega. Hvernig sem allt fer, þá verður um háspennuleik að ræða.

Það var sérstakt gleðiefni að forsetinn, Guðni Th. Jóhannesson var meðal áhorfenda á leiknum og sérstaka athygli vakti að hann horfði á allar þrjár loturnar til enda. Í upphafi leiks tók hann fyrsta uppkastið með fyrirliðum liðanna og stillti sér svo upp með báðum liðum og afraksturinn má sjá hér með fréttinni.

Það er vel við hæfi að fyrsti íshokkíleikurinn sem Guðni sér á Íslandi (hann hefur áður farið á NHL leik) hafi verið á milli kvennaliða og hér í Innbænum.