SA með mikilvægan sigur á SR í gærkvöld

Úr leiknum í gærkvöld. (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld. (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar tóku öll þrjú stigin í gærkvöld þegar þeir tóku á móti SR í Skautahöllinni á Akureyri en lokatölur voru 2-1. Fyrirfram var vitað að stigin væru gríðarlega mikilvæg fyrir bæði lið þar sem tækifæri gafst til þess að stytta bilið í toppliðin Esju og Björninn en hinsvegar myndi tap þýða að róðurinn yrði erfiður. Leikurinn einkenndist nokkuð af þessu þar sem varnarleikur barátta var í fyrirrúmi.

SA Víkingar byrjuðu leikin mun betur en SR og sóttu nokkuð hart fyrstu mínútur leiksins og sköpuðu sér ágættis marktækifæri. Það var þá nokkuð gegn gangi leiksins að SR skoraði fyrsta mark leiksins þegar þeir náðu í fyrsta sinn í leiknum góðri sóknarlotu. Sóknin stóð lengi yfir en þegar þreyttir leikmenn Víkinga freistuðu þess að komast í skiptingu þá komst Sölvi Atlason inn í sendingu frá varnarmanni Víkinga og lagði upp Kára Guðlaugsson sem stóð einn gegn markverði Víkinga og skaut viðstöðulaust af stönginni og inn. SA Víkingar héldu áfram að sækja grimmt og bar það árangur á 15. mínútu leiksins þegar Jussi Sipponen lagði Sigurð Sigurðsson upp í upplagt marktækifæri sem Ævar í marki SR varði en Sigurður náði sínu eigin frákasti og jafnaði leikinn.  SA Víkingar fengu tvo refsidóma undir lok lotunnar sem SR náði ekki að nýta þrátt fyrir margar góðar tilraunir.

Í annarri lotunni jafnaðist leikurinn töluvert og var nokkuð óreiðukenndur framan af þar sem stöðubaráttan var mikil en flæðið í spilinu minna. SR komst betur inn í leikinn þegar leið á og voru hættulegir sérstaklega í yfirtölunum þremur sem þeir fengu í lotunni en Jussi Suvanto í marki SA var öruggur milli stanganna. SA Víkingar fengur eina yfirtölu um miðja lotuna og það tók þá ekki nema 11 sekúndur að nýta hana þegar Andri Mikaelson smellti pekkinum yfir öxlina á markverði SR og kom Víkingum í 2-1.

Þriðja lotan var spilaðist framan af svipað og sú önnur en um miðja lotuna fóru SR virkilega að freista þess að jafna leikinn og urðu sóknirnar hættulegri þegar leið að lok lotunnar án þess að þeir næðu að skapa sér afgerandi marktækifæri. Síðustu tvær mínúturnar voru æsispennandi en þá bættu SR við sjötta útileikmanninum og héldu góðri pressu á Víkingum en leikurinn fjaraði út áður en þeir náðu að jafna og SA Víkingar fögnuðu vel í leikslok.

Góður baráttusigur hjá okkar mönnum og spilamennskan var góð og þá sérstaklega varnarleikurinn. SA Víkingar eru þá komnir með 8 stig í deildinni en Esja er á toppnum með 17 stig, Björninn í öðru sæti með 13 stig og SR reka lestina með 4 stig. SA Víkingar mæta toppliði Esju næstkomandi þriðjudag á heimavelli í Skautahöllinni á Akureyri en leikurinn hefst kl 19.30.

Mörk og stoðsendingar SA:

Sigurður Sigurðsson 1/0

Andri Már Mikaelsson 1/0

Jussi Sipponen 0/2

Ingvar Þór Jónsson 0/1