SA stúlkur með öruggan sigur í fyrsta leik í úrslitum

Kolbrún í leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Kolbrún í leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

SA vann Björninn örugglega í fyrsta leik úrslitakeppni kvenna á Akureyri í gærkvöld, lokatölur 10-2. SA geta nú tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í næsta leik sem fram fer í Egilshöll á miðvikudag.

SA stillti upp gríðarlega vel mönnuðu í liði þar sem þrjár fullar línur af blöndu leikmanna úr Ásynjum og Ynjum spiluðu saman í fyrsta sinn í vetur. Jónína Guðbjarts og Anna Sonja Ágústsdóttir gátu ekki tekið þátt í leiknum meðal annarra en það kom ekki niður á liðskipaninni þar sem um gríðarlega stórann og sterkann hóp er að ræða sem valið er úr.

SA byrjaði leikinn af krafti og hélt Birninum í varnarsvæði sínu fyrstu 5 mínútur leiksins. Fyrsta markið kom strax á fyrstu mínútu leiksins þegar Sarah Smiley fann lærling sinn hana Kolbrúni Garðarsdóttur óvaldaða í slottinu sem skaut góðu skoti í fyrstu snertingu og skoraði. SA hélt áfram að pressa og með góðri sóknarskiptingu náðu SA að halda pressu í sóknarsvæðinu þar sem lína Kolbrúnar, Söruh og Lindu kom á völlin fann Kolbrún hana Lindu í slottinu sem lagði pökkinn snyrtilega í fjærhornið og kom SA í 2-0. Björninn komst aðeins betur inn í leikinn eftir þetta en Elise varði allt sem á mark kom og Björninn náði ekki að laga stöðuna. Um miðja lotuna fékk Silvía Björgvinsdóttir sendingu frá Sunnu Björgvins framan við mark Bjarnarins og lagði pökkinn milli fóta markvarðar Bjarnarins og SA komið í enn vænlegri stöðu. SA var með tögl og haldir það sem eftir lifði lotunnar með góðu spili og fjölda marktækifæra. Rétt undir lok lotunnar tók Linda Sveinsdóttir góða rispu upp völlinn og skaut á markið en frákastið datt beint fyrir Söru Smiley sem lagði pökkinn auðveldlega í opið markið og kom SA í 4-0

Önnur lotann hófst eins og sú fyrri endaði þar sem SA pressaði stíft og samspilið gekk smurt. Sértaklega hættuleg var sóknarlína Birnu Blöndal með Sunnu og Silvíu en þær spiluðu sig í hvert dauðafærið á eftir öðru þar sem Birna var iðulega mætt framan við markið til þess að trufla sjónlínu markvarðarins eða freista þess að slá inn fráköstin. Eftir fimm mínútna leik í lotunni skoraði Silvía Björgvinsdóttir gott mark eftir góða sókn en hún náði þá lausum pekki út við ramman og kom sér fram fyrir mark Bjarnarins og skoraði laglega upp í markhornið. Silvía var aftur á ferðinni skömmu síðar þá stal hún pekkinum úr öfustu varnarlínu Bjarnarins og komst ein gegn markverðinum og þrumaði pekkinum í markið, glæsilegt einstaklingsframtak. SA gaf ekkert eftir og hélt uppi hápressu um allan völl. Liðin fengu sitthvora yfirtöluna en tóks ekki að nýta sér liðsmunin en rétt undir lok lotunnar vann Kolbrún Garðarsdóttir pökkinn beint úr uppkasti í varnarsvæði sínu og brunaði upp völlinn fram hjá öllum Bjarnarstúlkunum og setti pökkinn efst í markhornið og kom SA í 7-0 rétt fyrir annað leikhléð.

Leikurinn róaðist örlítið í þriðju lotu enda úrslitin ráðin en SA hafði þó undirtökin og héldu áfram að skapa sér færi. Sarah Smiley skoraði fyrsta mark lotunnar úr þröngu færi eftir gott samspil við Kolbrúni og kom SA í 8-0. Bjarnarstúlkur komust lítt áleiðis gegn sterkri vörn SA skroraði 9 markið án þess að Björninn næði að svara fyrir sig þegar Birna Blöndal komst ein gegn markverðinum og setti pökkinn í markhornið. Björninn náði þó að klóra í bakkan síðustu mínúturnar með tveimur mörkum gegn einu hjá SA og lokatölur leiksins 10-2.

SA liðið getur tryggt sér titilinn á miðvikudag í Egilshöllinni en það er nokkuð ljóst að róðurinn verður erfiður fyrir Bjarnarstúlkur þrátt fyrir heimavöllinn. Það getur þó allt gerst en SA liðið virðist vera gríðarlega einbeitt eins og sást á leiknum í gær þar sem þær spiluðu frábært hokkí frá upphafi til enda þrátt fyrir að leikurinn hafi verið nánast formsatriðið eftir fyrstu lotuna.

Hér má sjá myndir Sigurgeirs Haraldssonar úr leiknum í gær og Hér myndir Elvars Pálssonar.

Mörk og stoðsendingar SA:

Sil­vía Rán Björg­vins­dótt­ir 3/​1

Kol­brún María Garðars­dótt­ir 2/​2

Sarah Smiley 2/​1

Linda Brá Sveins­dótt­ir 1/​1

Sunna Björg­vins­dótt­ir 1/​1

Birna Bald­urs­dótt­ir 1/​1

Thelma Guðmunds­dótt­ir 0/​2

Arn­dís Sig­urðardótt­ir 0/​1

Eva María Karvels­dótt­ir 0/​1