SA Víkingar byrja tímabilið vel

SA Víkingar byrja nýtt tímabil í Hertz-deildinn vel en þeir unnu sannfærandi 6-2 sigur á SR í gærkvöld í Laugardal. Ungir leikmenn stigu sín fyrstu skref í leiknum og aðrir skoruðu sín fyrstu mörk fyrir SA Víkinga sem byrja tímabilið vel þrátt fyrir mikil mannaskipti frá síðasta tímabili.

Það var haustbragur á báðum liðum til að byrja með en Víkingar voru flótari til að átta sig á aðstæðum og spilið fór að verða nokkuð smurt þegar leið á fyrstu lotu. Það var markalaust eftir fyrstu lotu en strax í byrjun annarrar lotu skoraði Axel Orongan fyrsta mark leiksins fyrir SR en hann leikur í bláu í vetur. Víkingar voru ekki lengi að jafna metinn en Pétur Sigurðsson setti þá eina glæsilega slummu upp í markhornið beint úr uppskasti en þetta var fyrsta mark Péturs fyrir SA Víkinga. Andri Mikaelsson bætti svo við öðru marki fyrir Víkinga skömmu síðar áður en Andri Skúlason þrumaði pekkinum frá bláu línunni upp í markvínkilinn og SA Víkingar komnir í góða 3-1 stöðu fyrir síðustu lotuna. SR náðu að minnka muninn í eitt mark snemma í þriðju lotunni en Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði þá fjórða mark Víkinga með góðu einstaklingsframtaki. Jóhann Leifsson skoraði svo fimmta mark Víkinga eftir góðan undirbúning Andra Mikaelssonar og Ævar Arngrímsson það sjötta og jafnframt sitt fyrsta mark í meistaraflokki fyrir SA Víkinga.

 

Glæsileg byrjun hjá nokkuð hjá SA Víkinum sem spila með nokkuð breytt lið frá síðasta vetri. Tveir ungir leikmenn þeir Birkir Einisson og Ólafur Björgvinsson spiluðu sína fyrstu meistaraflokks leiki í gær og áttu báðir stórgott kvöld og sýndu góða takta.

 

SA Víkingar undirbúa sig nú fyrir næsta leik sem verður á heimavelli í Skautahöllinni Akureyri næstkomandi laugardag kl. 16:45.