SA Víkingar deildarmeistarar

SA Víkingar deildarmeistarar (mynd: Ási)
SA Víkingar deildarmeistarar (mynd: Ási)

SA Víkingar tryggðu sér deildarmeistaratitilinn í Hertz-deild karla á laugardag þegar liðið lagði Björninn í framlengingu. SA Víkingar tryggðu sér einnig heimaleikjaréttinn í úrslitakeppninni sem hefst í mars en liðið hefur unnið 10 af 12 leikjum sínum í deildarkeppninni í vetur. Björninn og SR keppast nú um hvort liðið mætir Víkingum í úrslitakeppninni en hvort liðið á 3 leiki eftir en SA Víkingar 4.

Björninn mæti með sterkt lið um helgina enda líflínan í úrslitakeppnina orðin stutt ef liðið hefði farið tómhent heim. SA Víkingar stilltu einnig upp sínu sterkasta liði en leikurinn var virkilega fjörugur og spennandi. SA Víkingar höfðu undirtökin lengst af og skoruðu fyrsta mark leiksins en þar var að verki Thomas Stuart-Dant. Kristján Kristinssson jafnaði leikinn fyrir Björninn um miðja aðra lotuna og Hilmar Sverrisson kom Birninum svo í forystu í byrjun 3. lotu. SA Víkingar settu mikla pressu á Björninn síðustu 10 mínútur leiksins en Artjom Leontiev í marki Bjarnarins var virkilega öfluggur og leikmenn Víkinga áttu erfitt með að finna leiðina fram hjá honum. Stíflan brast þó að lokum þegar 3 mínútur lifðu leiks en þá stýrði Jóhann Leifsson skoti Jussi Sipponens í markið. Leikurinn endaði í jafntefli og fór í framlengingu en þar höfðu SA Víkingar tveggja manna yfirtölu vegna útafrekstra leikmanna Bjarnarins undir lok 3. lotunnar. Það tók Víkinga ekki nema 30 sekúndur að skora úr yfirtölunni en þar var að verki Jussi Sipponen sem hamraði pökkinn í netið og tryggði liðinu sínu deildarmeistaratitilinn.

SA Víkingar hafa átt frábært tímabil í vetur en liðið hefur aðeins tapað 2 leikjum af 10 í deildarkeppninni en liðið vann einnig 4 leiki af 6 í Evrópukeppninni í haust. Deildarmeistaratitilinn er verskuldaður en það er ljóst að liðið má ekkert slaka á í næstu leikjum til þess að vera tilbúið í úrslitakeppnina um miðjan mars. SR hefur 5 stigum meira en Björninn en hvort liðið á 3 leiki eftir og því en allt opið um hvort liðið mætir Víkingum í úrslitakeppninni.