SA Víkingar eru Íslandsmeistarar í meistaraflokki 2025

Hópmynd af liðinu ásamt staffi - myndina tók Skapti Hallgrímsson
Hópmynd af liðinu ásamt staffi - myndina tók Skapti Hallgrímsson

SA Víkingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í þriðja leik í einvíginu við Skautafélag Reykjavíkur á fimmtudaginn. Úrslitakeppnin var heldur óvenjuleg að þessu sinni eða a.m.k. upphaf hennar vegna kærumála hvar Fjölnir og SR fengu úr því skorið fyrir dómstólum hvort liðið myndi mæta SA í úrslitum. Málaferlin töfðu úrslitakeppnina í eina viku en tímann nýttu okkar menn vel og æfðu í raun sleitulaust í tvær vikur fyrir átökin.

Það var alveg ljóst í undirbúningnum að leikmenn voru þess vel minnugir hvernig síðustu tveimur tímabilum lauk, en þá líkt og nú, hafði liðið orðið deildarmeistari með nokkuð auðveldum hætti. Liðið lét ekki lætin fyrir sunnan trufla sig og raun skipti ekki máli hvort liðið myndi mæta til leiks, en SR hreppti hnossið og verður það að teljast réttlát niðurstaða.

Yfirburðir SA Víkinga í úrslitakeppninni verða að teljast fáheyrðir en leikirnir fóru 7 – 4, 3 – 1 og 6 – 1. SR hefur á að skipa góðu liði og öflugum leikmönnum enda íslandsmeistarar síðustu tveggja ára, en í þetta skiptið mættu þeir ofjörlum sínum. Stuðningur á heimavelli skipti miklu máli, vel var mætt á pallanna og mikil læti í höllinni enda Akureyringar orðnir óþreyjufullir að fá bikarinn aftur heim.

Það er einnig gaman að segja frá því að allir leikmenn liðsins sem spiluðu þessa úrslitakeppni eru uppaldir leikmenn SA, fullar fjórar línur. Róbert Steingrímsson stóð á milli stanganna allan leikina og var með 91,3% markvörslu.

Stigahæstu leikmenn úrslitakeppninnar voru Unnar Rúnarsson með 7 stig (5/2), Uni Blöndal með 5 stig (2/3), Jóhann Leifsson með 4 stig (3/1) og Róbert Hafberg með 4 stig (1/3).