SA Víkingar héldu hreinu gegn Birninum

SA Víkingar tóku á móti Birninum í gærkvöld á heimavelli og áttu skínandi leik sem endaði með 6-0 sigri Víkinga. Svíinn Timothy noting byrjaði sinn fyrsta leik í marki Víkinga og hélt marki sínu hreinu og átti fjölmargar stórbrotnar markvörslur. Með sigrinum bættu SA Víkingar við forystu sína á toppi deildarinnar og eru nú með 4 stiga forskot á Esju sem er í öðru sætinu og 11 stig á Björninn sem er í því þriðja.

SA Víkingar byrjuðu leikinn betur í gær og sóttu nokkuð hart að marki Bjarnarins sem skilaði tveimur mörkum snemma leiks frá þeim Sigga Sig og Jordan Steger. Siggi Sig átti sterka innkomu í gær eftir að hafa verið frá vegna meiðsla en hann hefur verið límið í fyrstu línunni milli Jussi og Jordans í vetur sem hefur skilað ófáum mörkunum. Björninn komst betur inn í leikinn eftir miðja lotuna en náðu þó ekki að skapa sér þeim mun hættulegri færi svo staðan stóð í 2-0 eftir fyrstu lotu.

SA Víkingar tóku öll völd á vellinum í annarri lotunni og skoruðu snemma mark þegar Bart Moran kláraði frákast af skoti Jussi Sipponens. Strax í næstu skiptingu skoraði Jussi Sipponen sjálfur mark af bláu línunni með bombu sem Ómar Smárason í marki Bjarnarins réð ekki við. SA Víkingar gáfu ekkert af bensíngjöfinni og héldu áfram að sækja stíft að marki Bjarnarins sem skilaði fimmta markinu um miðja lotuna þegar Andri Mikaelsson sólaði markmann Bjarnarins og skilaði pekkinum í markið.

Þriðja lotan var enn nokkuð hröð og þar voru Bjarnarmenn sem sóttu meira og náðu loks að skapa sér almennileg marktækifæri en Timothy í marki Víkinga stóð vaktina vel og tók öll þau skot sem á markið komu. Orri Blöndal kórónaði svo gott kvöld SA Víkinga með upphlaupi og góðu langskoti undir lok leiksins sem í markið fór og SA Víkingar unnu því 6-0 sannfærandi sigur á Birninum.

Viðtal við Jussi Sipponen eftir leikinn.

SA Víkingar sækja Björninn heim nú á laugardag og sem verður að teljast krefjandi verkefni þrátt fyrir stórsigurinn í gærkvöld. Björninn þarf nauðsynlega á sigri að halda og eiga þar að auki harm að hefna. Næsti heimaleikur Víkinga er svo 16. desember þegar Víkingar fá Esju í heimsókn.