SA Víkingar komnir með 1-0 forystu í úrslitaeinvíginu

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar unnu sigur í jöfnum og spennandi leik í fyrsta leik úrslitakeppninnar í íshokkí sem fram fór í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöld. Annar leikurinn fer fram á morgun sunnudag í borginni en þetta er í fyrsta sinn sem Esja heldur heimaleik í úrslitakeppninni og byrjar leikurinn kl 17.00.

Það var vel mætt á pallanna í gærkvöld og áhorfendur létu strax í sér heyra. Það sló þögn á mannskapinn þegar Esja skoraði fyrsta mark leiksins eftir aðeins 30 sekúndna leik þegar pökkurinn datt fyrir Björn Róbert Sigurðarsson sem stóð óvaldaður við hlið marksins en hann renndi sér fimlega fram fyrir markið og setti pökkinn í opið mark. Óskabyrjun Esju sem létu kné fylgja kviði og sóttu betur en Víkingar fyrstu mínútur leiksins og spiluðu góða vörn um allann ís. Víkingar fengu sínar sóknir en voru yfirleitt fáliðaðir og seinir að setja pressu á leikmenn Esju. Það voru Víkingar sem fengu fyrsta brottrekstur leiksins um miðja fyrstu lotuna og Esju menn nýttu það vel. Þeir opnuðu vörn SA svo Björn Róbert náði skoti á góðum stað sem fór af kylfu Ólafs Björnssonar og lak milli fóta Steve í marki SA og Esja komið í 2-0. Víkingar vöknuðu eitthvað við þetta og fóru að gera sig líklegri til þess að skora en Esja spilaði skynsamlega og gáfu fá færi á sér. Sókn SA jókst eftir því sem leið á lotuna en mörkin urðu ekki fleiri. Í fyrsta leikhléi gafst áhorfendum kostur á að horfa stuttan sýningarleik yngstu kynslóðarinnar sem léku við hvern sinn fingur enda stuðningurinn af pöllunum góður.

SA byrjaði aðra lotuna ekki vel og fengu refsidóm strax í upphafi lotunnar. Undirmönnuð vörn Víkinga stóð vaktina vel og héldu Esja vel frá því að skora. Stuttu eftir að Víkingar urðu fullmannaðir þá misstu Esju menn pökkinn á hættulegum stað og sóknarmenn Víkinga komust þrír gegn einum varnarmanni SA og eftir tvær missheppnaðar tilraunir endaði pökkurinn hjá Sigurði Reynissyni sem stóð einn gegn markverði Esju og gerði vel og kom pekkinum í markið og staðan orðin örlítið vænlegri fyrir Víkinga. Leikurinn gekk mjög hratt á þessum kafla og liðin fengu bæði nokkra refsidóma en Esja missti svo tvo menn í boxið með stuttu millibili svo Víkingar fengu tveggja manna yfirlölu í rétt rúmar 20 sekúndur. Víkingar náðu að stilla vel upp en Ingvar Jónsson fann þá Mario Mjelleli á sínum uppáhaldstað sem þrumaði pekkinum viðstöðulaust í markið og jafnaði leikinn. Örlítið fátt kom á Esju við að missa forystuna og Víkingar nýttu sér það því strax í næstu sókn héldu Víkingar góðri pressu í varnarsvæði Esju sem endaði með því að fyrirliði Víkinga, Andri Már Mikaelson, fékk pökkinn í góðu færi og skoraði með hnitmiðuðu skoti og kom SA Víkinum í 3-2. SA Víkingar héldur áfram að pressa og fengu nokkur úrvalsfæri en náðu ekki að auka forystuna fyrir leikhlé. Kvennalið SA sem tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki kvenna síðastliðin miðvikudag syðra var hylltar á ísnum milli leikhluta við mikla gleði viðstaddra.

SA Víkingar byrjuðu þriðju lotuna í yfirtölu sem fór forgörðum. Esju menn fóru að sækja meira en SA Víkingar lágu til baka og freistuðu þess að halda fengnum hlut og gerðu nokkuð vel. SA héldu sér frá því að lenda í undirtölu sem hefði getað reynst dýrt en Esja fékk þó nokkur góð færi til þess að jafna leikinn en lukkudísirnar voru með Víkinum í gær og Víkingar lönduðu mikilvægum sigri í fyrsta leik úrslitakeppninnar.

Næsti leikur verður í laugardalnum á heimavelli Esju eins og áður sagði og verður spennandi að sjá hvernig umgjörðin verður hjá þessu nýja liði sem hafa áður sýnt það að þeir kunna að halda góðar veislur. Leikurinn byrjar kl 17.00 og er sýndur beint í netútsendingu í boði Borgarholtsskóla sem finna má bæði á heimasíðunni okkar og heimasíðu íshokkísambandsins.

Hér má sjá myndirnar sem Sigurgeir Haraldsson tók í leiknum og Hér myndir frá Elvari Pálssyni.

Mörk og stoðsendingar SA Víkinga:

Sigurður Reynisson 1/0

Mario Mjelleli 1/0

Andri Már Mikaelsson 1/0

Jussi Sipponen 0/2

Ingvar Þór Jónsson 0/1

Hafþór Sigrúnarson 0/1

Hilmar Leifsson 0/1