SA Víkingar með fullt hús stiga eftir tvo í Hertz-deildinni

Jói Leifs var öflugur í leiknum (Ási)
Jói Leifs var öflugur í leiknum (Ási)

SA Víkingar mættu SR í annað sinn í Hertz-deild karla í gærkvöld og unnu frábæran 3-1 sigur og tylltu sér þar með á topp Hertz-deildarinnar. SA Víkingar voru fyrir leikinn með 3 stig eftir sigur á SR í fyrsta leik en SR er nú en án stiga eftir 3 leiki spilaða leiki. Jóhann Már Leifsson, Hafþór Sigrúnarson og Matthías Stefánsson skoruðu mörk Víkinga í leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi leiks og liðin sóttu á báða bóga en SR skapaði sér þó fleiri færi í fyrstu lotu. Hættulegustu færi SR-inga komu í yfirtölu en Róbert Steingrímsson sem stóð í marki Víkinga hreinlega múraði upp í markið. Þegar um tvær mínútur lifðu fyrstu lotu skoraði Jóhann Már Leifsson fallegasta mark tímabilsins í Hertz-deildinni hingað til en hann skautaði af sér alla leikmenn SR á leið sinni upp endilangan völlinn og negldi svo pökknum upp í markhornið – stórglæsilegt mark. SA Víkingar fóru með 1-0 forystu til búningsherbergja eftir fyrstu lotu. SA Víkingar lentu í refsivandræðum í byrjun annarrar lotu og misstu tvo menn af velli með stuttu millibili þar sem SR spilaði fimm gegn þremur í tæpa mínútu. Víkinga vörnin fórnaði sér í verkefnið og náði að halda SR-ingum frá hættusvæðum og Róbert var áfram sem klettur í markinu og varði örugglega þau skot sem komu utan af velli. Um miðja aðra lotuna byggði Hafþór Sigrúnarson upp frábæra sókn hjá Víkingum sem hann lagði svo endahnútinn á sjálfur eftir stoðsendingu frá Andra Skúlasyni og kom Víkingum í 2-0 og þannig var staðan eftir aðra lotu. Í upphafi þriðju lotu tók Miloslav Racansky á sprett og skautaði af sér varnarmenn Víkinga og lagði pökkinn í markið og minnkaði muninn fyrir SR. SA Víkingar bættu í leik sinn við þetta og fengu nokkur góð færi til þess að auka forystuna. Um miðja þriðju lotuna brutu svo SR-ingar í tvígang á Jóhanni Leifssyni og misstu tvo leikmenn í refsiboxið á sama tíma auk þess að missa sinn lang besta leikmann Miloslav Racansky í refsiboxið það sem eftir lifði leiks. SA Víkingar nýttu sér yfirtöluna vel og skoruðu glæsilegt mark þar sem Róbert Hafberg átti gullfallega sendingu á fjær stöng sem Matthías Stefánsson kláraði af mikilli yfirvegun og komu Víkingum í ákjósanlega stöðu. SA Víkingar sigldu svo sigrinum örugglega í land síðustu mínútur leiksins og tylltu sér með sigrinum á topp Hertz-deildarinnar.

Róbert Steingrímsson markvörður Víkinga var besti leikmaður vallarins í gærkvöld en hann varði 29 skot í leiknum. SA Víkingar spiluðu á fjórum sóknarlínum og sjö varnarmönnum allan leikinn og spiluðu frábært hokkí á köflum. Víkinga liðið hefur sjaldan litið jafn vel út í upphafi móts og ungu leikmennirnir í liðinu virðast taka stór stökk á milli leikja sem er jákvætt fyrir framhaldið. Næsti leikur Víkinga er 19. október þegar liðið sækir Björninn/Fjölni heim í Grafarvoginn en næsti heimaleikur er svo 2. nóvember þegar sömu lið mætast í Skautahöllinni á Akureyri.