SA Víkingar með sigur í fyrsta leik sínum í Hertz-deildinni

Kristján Árnason veður upp (mynd: Ási)
Kristján Árnason veður upp (mynd: Ási)

SA Víkingar unnu góðan 6-1 sigur á SR í fyrsta leik Víkinga í Hertz-deildinni á tímabilinu. SA Víkingar byrja vertíðina vel og eru ósigraði í síðustu 6 leikjum í öllum keppnu. SR-liðið hefur tekið miklum breytingum frá síðustu leiktíð og var sigurinn kannski full stór miðað við spilamennsku þeirra. SR eru enn án 4-5 erlendra leikmanna og landsliðmanna sem eiga eftir að bætast við hópinn svo þeir verða án efa í toppbaráttunni í vetur eftir nokkur mögur tímabil.

SA Víkingar fengu óska byrjun í leiknum og komust í 2-0 eftir aðeins 5 mínútna leik með mörkum frá Thomas Stuart-Dant og Hafþóri Sigrúnarsyni. SA Víkingar lentu í refsivandræðum eftir þetta og voru manni færri lengst af því sem eftir leið lotunnar. SA Víkingar voru ekki mjög sannfærandi í byrjun leiks en komu sterkari inn í aðra lotu og náðu góðum tökum á leiknum. SR náði að minnka munninn um miðja lotuna með marki frá fyrrum SA leikmanninum Andra Sverrissyni.  Gunnar Arason jók muninn aftur í 2 mörk fyrir Víkinga skömmu síðar með fallegu marki og sínu fyrsta meistaraflokks marki. Mörkin eiga eflaust eftir að verða þónokkuð fleiri hjá Gunnari enda afar efnlegur leikmaður þar á ferð sem er einungis á 17. aldursári en nú þegar orðin ein af burðarrásunum í liði Víkinga. Jussi Sipponen skoraði svo fjórða mark Víkinga undir lok lotunnar og Jóhann Már Leifsson það fimmta 7. sekúndum áður en lotan kláraðist. SR-ingar komu grimmir inn í 3. Lotuna og fengu fjölmörg færi og hittu markstangirnar í tvígang en það voru Víkingar sem skoruðu eina mark lotunnar sem var ekki af verri gerðinni en sóknarvarnarmaðurinn Ingvar Jónsson skautaði upp völlinn fram hjá allri vörn SR og lagði pökkinn í netið eins og honum einum er lagið.

SA Víkingar náðu ekki upp sínum besta leik á laugarda enda þekkt vandamál hjá liðum að erfitt er að spila vel í kjölfar sigra í Evrópukeppni. Þrátt fyrir að spila ekki sinn besta leik náðu Víkingar að landa sigrinum sem var kannski ekki jafn þægilegur og lokatölur gefa til kynna. SR-ingar virkuðu mjög hungraðir en eru með nokkuð ungt lið þar sem þeirra bestu leikmenn eru ekki enn mætir til móts. 

Næsti leikur Víkinga í Herz-deildinni er ekki fyrr en 27. Október þar sem liðið keppir í Evrópukeppnni í Lettlandi daganna 19.-21. október. Víkingar mæta þá SR á útvelli og mæta svo Birninum á heimavelli 30. Október.