SA Víkingar með tap í fyrsta heimaleik

Jordan Steger var öflugur í gær (mynd:Elvar P.)
Jordan Steger var öflugur í gær (mynd:Elvar P.)

SA Víkingar töpuðu fyrsta heimaleik sínum gegn Esju í gærkvöld þar sem lokatölur urðu 4-6. Leikurinn var hraður og skemmtilegur á að horfa og ljóst að þessi lið eiga eftir að selja sig dýrt í vetur. Jordan Steger skoraði sína aðra þrennu á tímabilinu í leiknum fyrir SA Víkinga en hjá Esju var Robbie Sigurdsson atkvæðamikill en hann skoraði 4 mörk í leiknum. Næsti leikur SA Víkinga er næstkomandi þriðjudag þegar liðið sækir SR heim í Laugardalinn. Elvar Pálsson myndaði leikinn eins og honum er vant hér má sjá myndirnar hans.

SA Víkingar byrjuðu leikinn ágætlega í gærkvöld og náðu snemma forystu með marki frá Jordan Steger. Esja komst þó fljótt inn í leikinn og gerðu enn betur og náðu forystu með tveimur mörkum á með stuttu um miðja lotuna en Jordan Steger sá til þess að SA Víkingar fóru með jafnan leik inn í fyrsta leikhlé. SA Víkingar byrjuðu aðra lotuna vel og fengu góð færi en það var Esja sem skoraði fyrsta mark lotunnar. SA Víkingar fengu vítaskot í kjölfarið sem fór aflaga og stuttu síðar komst leikmaður Víkinga einn gegn markverði Esju en hitti ekki á markið. Esja skoraði fjórða mark sitt skömmu síðar svo um nokkurn vendipunkt var að ræða. Esja skoraði svo fimmta mark sitt undir lok lotunnar þega Björn Róbert Sigurðsson smell hitti pökkinn á bláu línunni sem endaði í samskeytunum. Þriðja lotan var því brekka fyrir Víkinga sem sóttu mikinn en það var Esja sem náði að skora fyrsta markið um miðja lotuna og komst í 6-2 áður en Jordan Steger og Sigurður Sigurðsson náðu að fegra lokastöðuna í 6-4.

Heilt yfir nokkuð góð frammistaða hjá okkar mönnum í gærkvöld og liðið lítur vel út í byrjun tímabils þrátt fyrir tapið svo menn geta farið nokkuð hnakkreistir inn í næsta leik.  Næsti leikur SA Víkinga er einmitt næstkomandi þriðjudag þegar liðið sækir SR heim í Laugardalinn en taka svo aftur á móti SR á heimavelli laugardaginn 23. septeber en leikurinn hefst kl 16.30.