SA Víkingar misstigu sig gegn Esju í taugatrilli

Orri Blöndal var öflugur í leiknu (mynd: Elvar P.)
Orri Blöndal var öflugur í leiknu (mynd: Elvar P.)

SA Víkingar töpuðu tveimur stigum á laugardag þegar Esja mætti í Skautahöllinni á Akureyri og kreysti fram sigur í framlenginu, lokastaðan 5-6.

Esjumenn mættu grimmari til leiks og náðu forystu snemma leiks þegar Pétur Maack slapp í gegnum vörn Víkinga og skoraði fyrsta mark leiksins í yfirtölu. SA Víkingar vöknuðu af værum svefni við þetta og komust inn í leikinn með marki frá Jóhanni Leifssyni. Leikurinn var vel spilaður af báðum liðum þar sem sóknarleikurinn var í fyrirrúmi. SA Víkingar náðu svo 2-1 forystu með laglegu marki Jordans Stegers um miðja lotuna en Esja kom til baka og skoruðu tvö mörk með stuttu millibili áður en lotan kláraðist.

SA Víkingar mættu hungraðir til leiks í annarri lotunni og stjórnuðu leiknum lengi vel en það voru Esjumenn sem skoruðu fyrsta markið og náðu tveggja marka forystu um miðja lotuna. SA Víkingar minnkuðu muninn með öðru marki Jordans Stegers en Esja jók forystuna jafn harðan í tvö mörk áður en lotan kláraðist.

SA Víkingar minnkuðu munninn í eitt mark strax í byrjun þriðju lotu með marki Bart Morans og héldu þungri pressu á Esju þangað til um 8 mínútur lifðu leiks en þá jafnaði Andri Már Mikaelsson leikinn í yfirtölu. SA Víkingar héldu áfram að þjarma að marki Esju og fengu tvö dauðafæri sem bæði fóru forgörðum og leikurinn fór því í framlengingu. Robbie Sigurðsson skoraði þá sigurmarkið fyrir Esju með laglegu einstaklingsframtaki og Esja tók því tvö stig úr leiknum en Víkingar aðeins eitt.

SA Víkingar eru þó enn á toppi deildarinnar en næsti leikur Víkinga er á útivelli gegn SR laugardaginn 11. Nóvember. Næsti heimaleikur Víkinga er svo þriðjudaginn 14. nóvember þegar Björninn kemur í heimsókn.