SA Víkingar náðu vopnum sínum gegn Esju í seinna skiptið

Úr fyrri leik liðanna (mynd: Sigurgeir Haraldsson)
Úr fyrri leik liðanna (mynd: Sigurgeir Haraldsson)

SA Víkingar sigruðu Esju í gærkvöld þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en eftir vítakeppni. SA Víkingar halda því toppsætinu í Hertz deildinni þegar einunngis tvær umferðir eru óspilaðar og eru aðeins einum sigri frá því að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Esja er í dauðafæri á því að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu félagsins en aðeins kraftaverk hjá Birninum getur komið í veg fyrir það.

Leikurinn í gær bar nokkur merki þess að stutt sé í úrslitakeppnina þar sem baráttan var mikil og spennustigið hátt. Bæði lið stigu varlega til jarðar í byrjun fyrstu lotunnar en hraðinn jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á lotuna og harkan samhliða. Sterkur varnarleikur beggja liða gerði sóknarmönnum erfitt fyrir að koma sér í ákjósanleg marktækifæri og endaði lotann 0-0 en var stórskemmtileg og vel spiluð þrátt fyrir það.

Í annarri lotunni fóru liðin að gera fleiri mistök sem buðu upp á betri færi og fleiri yfirtölur. Esjumenn fengu fyrstu tvær yfirtölurnar í lotunni, aðra þeirra með tveggja manna mun en náðu ekki að nýta sér liðsmuninn. SA Víkingar tóku völdin á vellinum eftir þetta og pressuðu nokkuð stíft og virtust ætla sækja fyrsta mark leiksins. Esjumaðurinn Brynjar Bergmann var svo sendur í sturtu um miðja aðra lotuna fyrir spark og fengu Víkingar því 5 mínútna yfirtölu. Það gekk illa hjá Víkingum að stilla sér upp í sóknarsvæðinu þar sem Esjumenn pressu vel um allan völl og yfirtalan rann út í sandinn hjá Víkingum og lotann endaði 0-0 líkt og sú fyrsta.

Í þriðju lotunni brustu svo fyrst flóðgáttirnar þegar Esjumenn komust þrír gegn einum varnarmanni Víkinga og Pétur Maack lék skemmtilega á Steve í marki Víkinga og kom Esju í 1-0. Esjumenn bökuðu aðeins aftur á völlinn eftir markið en spiluðu sterka vörn og ætluðu greinilega að halda fengnum hlut og treysta á skyndisóknir. SA Víkingum gekk brösulega að skapa sér góð marktækifærir þrátt fyrir að halda pekkinum vel en 8 mínútum fyrir leikslok slapp Jón B. Gíslason í skotfæri og þrumaði pekkinum fram hjá hanska Daníels í marki Esju og jafnaði leikinn fyrir SA Víkinga. SA Víkingar héldu áfram að pressa eftir þetta en misstu mann af velli þegar 6 mínútur lifðu leiks. Rétt áður en yfirtala Esju kláraðist misstu Víkingar annan mann í boxið og svo stuttu síðar þann þriðja þegar pekkinum var skotið út fyrir völlinn og Esjumenn fengu tveggja manna yfirtölu í næstum fullar tvær mínútur. Það tók Esju ekki langan tíma að skora í vel útfærðri sókn þar sem pökkurinn gekk hratt milli manna og Ólafur Björnsson lagði pökkinn í opið mark eftir sendingu Egils Thormóðssonar og Víkingar en manni færi og aðeins þrjár mínútur eftir. Sigurinn virtist ætla að falla Esjumeginn en mínútu fyrir leikslok náði Orri Blöndal skoti af bláu línunni í gegnum traffík sem Daníel varði en frákastið endaði á spaðanum hjá Jóni B. Gíslasyni sem gat ekki annað en skorað og Víkingar náðu þar með að knýja fram framlengingu. Engin mörk voru skoruð í framlengingunni og leikurinn fór því í vítakeppni. Jón B. Gíslason skoraði úr öðru víti Víkinga en Esja náði ekki að skora úr sínu þriðja og Víkingar náðu því mikilvægum tveimur stigum.

Staðan í deildinni er þá þannig að SA Víkingar eiga 4 stig á Esju fyrir síðustu tvær umferðirnar og nægir því að vinna annan leikinn til þess að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Esja á svo 6 stig á Björninn og +9 mörk í markatölu og þurfa því aðeins 1 stig í viðbót til þessað tryggja sig inn í úrslitakeppnina en þessi lið mætast einnmitt á þriðjudag í þýðingarmiklum leik þar sem staðan í deildinni á eftir að ráðast enn frekar á hvorn veginn sem fer. SA Víkinga spila næst við SR sunnan heiða komandi föstudag og taka svo á móti Birninum á heimavelli í síðasta leik deildarkeppninnar þriðjudaginn 16. febrúar kl 19.30.