SA Víkingar stigalausir á nýju ári en Ynjur og 2. flokkur með fullt hús.

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar voru enn í jólafríi þegar þeir tóku á móti Bjarnarmönnum í gærkvöld en Björninn vann leikinn auðveldlega, lokatölur 8-5. Ynjur unnur Björninn í fyrri leik kvöldsins 10-0 í Hertz deild kvenna og minnkuðu muninn í Ásynjur. Sama markatala var í 2. flokki þar sem Björninn mæti ekki til leiks og okkar menn fengu því stigin gefins og markatöluna 10-0. 

SA Víkingar komu heldur værukærir inn í nýtt ár eftir sjö sigra í röð í deildinni og buðu Bjarnarmönnum uppá 2-0 forystu eftir aðeins þriggja mínútna leik í gærkvöldi. Markamaskínan Jussi Sipponen jafnaði þó leikinn fyrir Víkinga nánast upp á sitt einsdæmi með tveimur mörkum áður en lotan var hálfnuð. Bjarnarmenn náðu aftur forystunni með marki frá Fali Guðnasyni áður en lotan var á enda og fóru með 3-2 forystu inn í aðra lotuna. Bjarnarmenn náðu snemma í annarri lotunni að skora fjórða markið þegar Úlfar Andrésson skoraði nánast beint úr uppkasti. Víkingar svöruðu fyrir sig fyrst með marki frá Helga Gunnlaugsyni beint upp í vinkilinn eins og hann er vanur að gera og svo Mario Mjelleli eftir góða skyndisókn og staðan 4-4. Bjarnarmenn náðu svo forystunni í þriðja skiptið í leiknum þegar Egan Ryley smurði pökkinn í markið og svo aftur stuttu síðar með öðru marki sínu og Björninn fór með 6-4 forystu inn í leikhlé. Víkingar mættu nokkuð grimmir út í þriðju lotuna og sóttu stíft en spiluðu enga vörn ekki frekar en áður og Bjarnarmenn gengu á lagið og náðu þriggja marka forystu með öðru marki Fals Guðnassonar og svo fjögurra marka forystu þegar Egan Ryley skoraði sitt þriðja mark í leiknum. Víkingar náðu aðeins að klóra í bakkann undir lokin þega Sigurður Þorsteinsson smellti pekkinum laglega í samskeytin en ekki komust Víkingar nær og nokkuð ljóst að þó liðið sé á toppnum þá getur það líka náð botninum. SA Víkingar gerðu hreinlega upp á bak í þessum leik allir sem einn og nokkuð ólíkt liðinu að sýna annað eins andleysi en vonandi geta menn þó hisjað upp um sig fljótt ef vel á að fara.

Mörk/stoðsendingar SA Víkinga:

Jussi Sipponen 2/0
Helgi Gunnlaugsson 1/0
Sigurður Freyr Þorsteinsson 1/0
Mario Mjelleli 1/0
Sigmundur Sveinsson 0/2
Jón B. Gíslason 0/1
Hafþor Andri Sigrúnarson 0/1
Björn Már Jakobsson 0/1
Heiðar Örn Kristveigarson 0/1

Ynjur unnu sinn leik gegn Birninum sannfærandi og sýndu að þær hafa jafnað sig eftir harða útreið í síðasta leik gegn Ásynjum. Ynjur voru nánast einráðar í fyrstu lotu og náðu löngum sóknarlotum en það tók nokkra stund áður en pökkurinn fór í netið en Sunna Björvindsóttir kom þeim í 1-0 um miðja lotuna. Birna Baldursdóttir bætti við öðru markinu og Silvía Björgvindóttir því þriðja áður en lotan var á enda. Markaskorunin gekk mun betur í annarri lotunni en Ynjur skoruðu fimm mörk í lotunni frá þeim Silvíu Björgvinsdóttir (2), Kolbrúni Garðarsdóttur, Sunnu Björgvins og glæsilegu langskoti frá Ragnhildi Kjartandsóttur án þess að Björninn næði að svara fyrir sig. Ynjur bættu svo við tveimur mörkum í síðustu lotunni og sigldu þægilegum sigri heim en mörkin skoruðu þær Berglind Leifsdóttir og Eva Karvelsdóttir. Ynjur nálgast því toppinn á ný en eru 4 stigum á eftir Ásynjum en bæði leið eiga 3 leiki eftir í deildinni og þar af einn innbyrðis leik.

Mörk/stoðsendingar Ynja:

Silvía Rán Björgvinsdóttir 3/2
Sunna Björgvinsdóttir 2/0
Berglind Leifsdóttir 1/2
Birna Baldursdóttir 1/1
Kolbrún Garðarsdóttir 1/0
Eva María Karvelsdóttir 1/0

Ragnhildur Kjartandsóttir 1/0
Apríl Orongan 0/2
Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1