SA Víkingar verma toppsætið yfir jólin

SA Víkingar fagna (mynd: Elvar Páls)
SA Víkingar fagna (mynd: Elvar Páls)

SA Víkingar unnu þægilegan en ekki auðveldan 5-1 sigur á SR í gærkvöld í síðasta heimaleik liðsins fyrir jól. Esja vann Björninn á sama tíma syðra og lengdist þá enn bilið á toppi deildarinnar í liðin í þriðja og fjórða sæti. SA Víkingar eiga þá aðeins eftir einn útileik fyrir jól gegn Esju um næstu helgi en SA eiga 4 stig á Esju fyrir leikinn og SA fara því sannarlega inn í jólafríið á toppnum í deildinni hvernig sem sá leikur fer.

Útlitið var ekki bjart fyrir Víkinga í aðdraganda leiksins í gærkvöld þar sem á meiðslalistanum voru þeir Ingvar Þór Jónsson og Sigurður Sigurðsson, Orri Blöndal átti ekki heimangengt í leikinn og Matthías Már Stefánsson var veikur. Liðsuppstilling var því þar eftir götunum en SR-ingar komu með nánast fullskipað lið að frátöldum Ingólfi Elíassyni.

SR byrjaði leikinn mun betur en Víkingar og gerðu sig strax líklega í sókninni og náðu oft á tíðum góðri pressu á lið Víkinga. Það var því kærkomið fyrir Víkinga að ná forystunni þegar Andri Már Mikaelsson skoraði snemma leiks úr gegnumbroti og kom Víkingum í 1-0. Fyrrnefndur Andri komst strax í næstu sókn aftur einn gegn markmanni en Ævar í marki SR sá þá við honum en úr frákastinu náðu SA að skora þegar Heiðar Örn Kristveigarson skoraði í opið markið og kom SA í 2-0. Víkingar komust betur inn í leikinn við þetta og liðin skiptust á að sækja og fengu fín marktækifæri en það besta kom sennilega undir lok lotunnar þegar Andri Mikaelsson fékk sitt þriðja tækifæri einn gegn Ævari og skoraði með laglegri fintu og kom Víkingum í 3-0.

SR-ingar mættu grimmir inn í aðra lotunna og settu aftur mikla pressu og voru oft á tíðum hársbreidd frá því að skora en Steve í marki Víkinga varði eins og berserkur. Þegar leið á lotunna virtust skot SR-inga verða ómarkvissari þar sem ekkert gekk að koma pekkinum bak við Steve í marki Víkinga. Þá var þá ekki fyrr en Miloslav Racansky átti bilmingskot frá bláu línunni fleiri metra fram hjá markinu að pökkurinn speglaðist að því virtist af fingri Daníels Magnússonar að pökkurinn endaði í markinu. Daníel sýndi áhorfendum illa farinn fingurinn en skautaði rakleiðis af velli og kom ekki meira við sögu í leiknum. Það tók SA Víkinga ekki nema hálfa mínútu að ná upp sömu forystu þegar þeir komust yfirmannaðir þrír gegn einum varnarmanni SR-inga og Hafþór Sigrúnarson fann Mario Mjelleli óvaldaðan framan við mark SR og eftirleikurinn auðveldur, staðan 4-1 fyrir síðustu lotuna.

SA Víkingar bættu við fimmta markinu snemma í þriðju lotu og gerðu þar með út um leikinn þegar Jón B. Gíslason komst einn gegn Ævari í marki SR og skoraði með fintu. Þá má segja að þetta hafi verið saga leiksins þar sem SR liðið náði oft á tíðum löngum sóknarlotum en sóttu kannski af of miklum móð því Víkingar komust trekk í trekk í yfirmannaðar skyndisóknir eða gegnumbrot. Maður leiksins að öðrum ólöstuðum var Steve í marki Víkinga sem hreinlega múraði upp í markið og hélt SR-ingum frá því að skora úr þeim 33 af 34 skotum sem þeir skuta á markið sem verður að teljast skrambi gott.

SA Víkingar mætta sem fyrr segir Esju um næstu helgi en næsti heimaleikur Víkinga er 3. Janúar þegar þeir mæta Birninum í Skautahöllinni á Akureyri kl 19.30.

Mörk og stoðsendingar SA:

Andri Már Mikaelsson 2/1

Jón B. Gíslason 1/2

Heiðar Krisveigarson 1/1

Hafþór Andri Sigrúnarson 1/0

Mario Mjelleli 1/0

Björn Már Jakobsson 0/1

Hilmar Leifsson 0/1

Sigurður Freyr Þorsteinsson 0/1

(Myndir í boði Elvars Pálssonar ljósmyndara)