SA Ynjur sigruðu SR

Silvía með pökkinn (mynd: Elvar Pálsson)
Silvía með pökkinn (mynd: Elvar Pálsson)

Skautafélag Reykjavíkur tók á laugardagskvöld á móti Ynjum Skautafélags Akureyrar, en er þetta í annað sinn í vetur sem þessi lið mætast. Síðasta viðureign var mjög jöfn og náðu Ynjur aðeins að knýja fram sigur á lokamínútum leiksins. Að þessu sinni voru Ynjur þó með yfirhöndina allan leikinn og urðu lokatölur 3-9 Ynjum í vil.

Ekki voru liðnar nema 24 sek. af leiknum þegar Ynjur skoruðu fyrsta mark leiksins en þar var á ferðinni hin unga og bráðefnilega Kolbrún Garðarsdóttir. Hún bætti svo við öðru marki fyrir Ynjur á 10. mínútu leiksins þegar Ynjur spiluðu manni fleiri. Kolbrún var frá vegna meiðsla í síðustu viðureign þessara liða en kemur heldur betur sterk inn. Silvía Björgvinsdóttir skoraði þriðja mark Ynja með stoðsendingu frá Kolbrúnu þegar 14 mínútur voru liðnar af leiknum en Silvía launaði svo greiðann með stoðsendingu á Kolbrúnu á 18. mínútu.  Stuttu seinna minnkaði þó Gerður Guðmundsdóttir muninn fyrir SR með stoðsendingu frá Veru Ólafsdóttur en fleiri urðu mörkin ekki í þeirri lotu og staðan því 1-4 og á brattann að sækja fyrir SR. Engum datt þó í hug að afskrifa SR stúlkur strax enda hafa þær byrjað tímabilið vel og til alls líklegar.

SR voru líka ekki lengi að minnka muninn enn frekar strax í upphafi annarrar lotu og voru þar aftur á ferðinni  þær stöllur Gerður Guðmundsdóttir og Vera Ólafsdóttir. Hrukku þá Ynjurnar aftur í gang og skoruðu Sunna Björgvinsdóttir og Silvía Björgvinsdóttir sitt markið hvor og staðan þá orðin 2-6 Ynjum  í vil. SR voru þó ekki hættar heldur bættu við marki er þær fengu tæki færi til að spila manni fleiri undir lok lotunnar.  Var þar á ferðinni Brynhildur Hjaltested og reyndist það síðasta mark lotunnar og staðan því 3-6 fyrir þriðju og síðustu lotuna.

Skemmst er frá því að segja að í síðustu lotunni skoraði Silvía Björgvinsdóttir 3 mörk í viðbót og tryggði öruggan sigur Ynja. Ynjur eru nú á toppi deildarinnar með 6 stig eftir tvo leiki, Ásynjur eru með 3 stig eftir einn leik, SR eru með 3 stig eftir þrjá leiki en Björninn er án stiga eftir tvo leiki.

Á þriðjudaginn næsta má því búast við hörkuleik á milli Ynja og Ásynja í skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn hefst kl. 19:30 og verður eflaust hin mesta skemmtun enda ósjaldan sem leikir milli þessara liða enda í framlengingu eða vítakeppni.

Mörk/stoðsendingar SR:

Gerður Guðmundsdóttir 2/0

Brynhildur Hjaltested 1/2

Vera Ólafsdóttir 0/2

 

Refsimínútur SR: 8 mín.

 

Mörk/stoðsendingar  Ynja:

Silvía Björgvinsdóttir 5/1

Kolbrún Garðarsdóttir 3/2

Sunna Björgvinsdóttir 1/4

Ragnhildur Kjartansdóttir 0/3

 

Refsimínútu Ynja: 2 mín.