Super Mario afgreiddi Björninn

Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)
Úr leiknum í gærkvöld (mynd: Elvar Pálsson)

SA Víkingar sigruðu Björninn í gær á heimvelli í hröðum og skemmtilegum leik, lokatölur 5-2. Sigurinn var gífurlega mikilvægur fyrir Víkinga í toppbaráttunni og náðu toppsætinu í tæpa klukkustund áður en Esja lagði SR síðar sama kvöld í framlengdum leik. Esja hefur því eins stigs forskot á Víkinga þegar deildarkeppnin er hálfnuð en þessi lið mætast næstu helgi í Skautahöllinni á Akureyri.

Það var hart tekist á frá fyrstu mínútu í Skautahöllinni Á Akureyri, sótt var á báða bóga og það má segja að jafnræði hafi verið með liðunum lengst af. Björninn fékk óskabyrjun og náði forystu í leiknum eftir aðeins þriggja mínútna leik með marki Kristjáns Kristinssonar af stuttu færi í yfirtölu. Tveimur mínútum síðar fengu Bjarnarmenn brottvísun og það tók Víkinga ekki nema 15 sekúndur að nýta sér liðsmuninn en þá skoraði Mario Mjelleli með sleggju í nær hornið utan af kanti. #Super Mario var svo aftur á ferðinni á 16. mínútu þegar hann smellti pekkinum glæsilega upp í markhornið af stuttu færi ,eftir að Jussi Sipponen hafði stolið pekkinum úr öftustu varnarlínu Bjarnarins, og kom Víkingum í 2-1. Björninn jafnaði metin undir lok lotunnar eftir mikinn barning framan við mark Víkinga þar sem pökkurinn barst á endanum til Vignis Arasonar á bláu línunni sem náði föstu skoti en Úlfar Andrésson stýrði skotinu glæsilega upp í markhornið.

Önnur lotann var ekki síður skemmtileg en sú fyrsta og bæði lið fengu fjölmörg marktækifæri. SA Víkingar náðu forystu í leiknum snemma í lotunni enn og aftur í yfirtölu þar sem töframaðurinn Mario Mjelleli fann Hilmar Leifsson óvaldaðann framan við mark Bjarnarins og sá gerði engin mistök. Björninn fékk yfirtölu skömmu síðar en hættulegasta færið fengu sennilega Víkingar þrátt fyrir liðsmuninn þar sem Mario Mjellelli komst einn í gegn á Ómar í marki Bjarnarins sem varði skotið vel. Bjarnarmenn fengu frábært færi nokkru síðar og vildu meina að pökkurinn hefði farið yfir marklínuna en dómarinn var ekki á sama máli. Orri Blöndal fékk refsidóm undir lok lotunnar og Björninn fékk ákjósanlegt færi á því að jafna metin. Það voru hinsvegar Víkingar sem bættu við marki manni færri þar sem að Sigurður Sigurðsson vann pökkinn snyrtilega af Bjarnarmönnum og sendi glæsilega sendingu á Hafþór Andra Sigrúnarson sem þaust milli varnarmanna Bjarnarins og skoraði örugglega úr færinu og kom SA Víkingum í 4-2.

Bjarnarmenn komu grimmir úr leikhléi voru greinilega staðráðnir í að koma sér strax inn í leikinn aftur og léttu skotunum rigna á mark Víkinga fyrstu þrjár mínúturnar. Bjarnarmenn fengu refsidóm snemma lotunnar og Víkingar fengu í yfirtölunni góð færi til að auka muninn í tvígang en í það seinna skoraði reyndar Mario Mjelleli mark en það dæmt ógilt vegna leikmanns sem stóð inn í markteig Bjarnarins. Refsidómur Bjarnarins hafði varla klárast þegar Egan Ryley tæklaði Hafþór Andra Sigrúnarson beint í höfuðið og fékk brottvísun úr leiknum. Hafþór Andri tók ekki frekari þátt í leiknum og eftir læknisskoðun hefur komið í ljós að hann er með heilahristing sem verður að teljast mikil blóðtaka fyrir Víkinga þar sem hann verður frá keppni um ókomna framtíð. SA gekk illa að nýta sér liðsmuninn í yfirtölu sem standa átti yfir í 5 mínútur en Hilmar Leifsson fékk svo tveggja mínútna dóm og liðin spiluðu 4 gegn 4. SA Víkingar fengu gott færi þar sem Jussi Sipponen sólaði sig einn gegn markamanni Bjarnarins en hann varði vel. SA Víkingar stjórnuðu leiknum vel síðustu tíu mínúturnar og sköpuðu sér nokkur ágætis færi og héldu Birninum að mestu frá markinu. Bjarnarmenn freistuðu þess að minnka muninn undir lok leiksins með því að skipta Ómari úr markinu fyrir útileikmann en Andri Már Mikaelsson nýtti sér það og skoraði í tómt markið og leiknum lauk því með 5-2 sigri SA Víkinga. Fyrir þá sem ekki sáu sér fært að mæta á leikinn þá má finna upptöku af leiknum hér.

Mörk og stoðsendingar SA Víkinga:

Mario Mjell­eli 2/​2
Hafþór Andri Sigrún­ar­son 1/​0
Hilm­ar Freyr Leifs­són 1/​0
Andri Már Mika­els­son 1/​0
Sig­urður Sig­urðsson 0/​2
Jussi Sippon­en 0/​2
Ingvar Þór Jóns­son 0/​1

3. Flokkur SA tók á móti Birnium strax að loknum leik Víkinga en leiknum lauk með 1-1 jafntefli og Björninn fékk aukastigið með sigri í vítakeppni. Mark SA skoraði Bjartur Geir.

Hér má sjá nokkrar vel valdar myndir Elvars Pálssonar ljósmyndara sem var á staðnum.