Tap gegn Nýja-Sjálandi. Ísland mætir Spáni á morgun í lokaleiknum!

Íslenska kvennalandslið í íshokkí tapaði í gærkvöld fyrir Nýja-Sjálandi eftir að hafa leitt leikinn 3-1 í annarri lotu en Nýja-Sjáland skoraði 3 síðustu mörk leiksins og unnu 4-3. Nýja-Sjáland komst þar með upp fyrir Ísland í annað sætið en Ísland mætir Spáni á morgun en þá ræðst hvaða lið ná verðlaunasætum.

Nýja-Sjáland komst yfir í leiknum í gær snemma í fyrstu lotu og staðan var 0-1 eftir fyrstu lotu. Flosrún Jóhannesdóttir jafnaði leikinn strax í byrjun annarar lotu og kom svo Íslandi í 2-1 skömmu síðar. Silvía Björgvinsdóttir kom svo Íslandi í 3-1 um miðja lotuna en Nýja-Sjáland minnkaði munninn um hæl í 3-2. Þriðja lotan var æsispennandi en bæði lið fengu góð marktækifæri en það var Nýja-Sjáland sem var fyrr til að skora og jafnaði leikinn þegar um 7 mínútur lifðu leiks og skoruðu svo fjórða markið og komst yfir í leiknum þegar aðeins 3 og hálf mínúta voru eftir. Ísland lagði allt í sölurnar til þess að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og Nýja-Sjáland hirti öll stigin þrjú og annað sætið úr greipum Íslands. Flosrún Jóhannesdóttir var valin besti leikmaður liðsins í leiknum en hún hefur nú skorða 6 mörk í mótinu og átt tvær stoðsendingar og er bæði marka- og stigahæsti leikmaður mótsins til þessa.

Ísland mætir Spáni annað kvöld kl. 20.00 í lokaleik mótsins og þá ræðst hvaða lið ná silfri og bronsi í mótinu en Mexíkó hefur nú þegar tryggt sér gullið. Ísland er nú með 6 stig í fjórða sæti riðilsins, Nýja-Sjáland er með 7 stig í þriðja, Spánn með 8 stig í öðru og Mexíkó með 12 stig í fyrsta sæti. Leikir morgundagsins eru Mexíkó-Tyrkland kl 13.00, Nýja-Sjáland Rúmenía kl 16.30 og svo Ísland-Spánn en strax að loknum þeim leik er verðlaunaafhending mótsins.

Flosrún og Sunna fagna marki. (mynd: Elvar Freyr Pálsson)