Tímabilið senn að hefjast

Ljósmynd:  Sigurgeir Haraldsson
Ljósmynd: Sigurgeir Haraldsson

Mótafyrirkomulag í meistaraflokki karla liggur nú fyrir en það er ánægjulegt frá því að segja að þessu sinni munu fimm lið taka þátt í Íslandsmótinu.  Við munum líkt og í fyrra tefla fram bæði Víkingum og Jötnum og Björninn mun einnig tefla fram tveimur liðum og SR einu liði.  Spilaðar verða 4 umferðir fyrir utan úrslitakeppni og líkt og á síðasta tímabili verða einhverjar tilfærslur á milli liða leyfilegar en endaleg útfærsla á því liggur ekki enn fyrir, a.m.k. ríkir mikil þögn á heimasíðu Íshokkísambandsins um málið enda ekki verði sett inn frétt þar síðan í maí.

 

Samkvæmt óstaðfestum heimildum eru tvær vikur í fyrsta leik í Íslandsmótinu og því ekki seinna vænna fyrir liðin að skerpa skautana og teypa kylfurnar.   Samkvæmt upplýsingum á heimasíðum sunnanliðanna þá má gera ráð fyrir þeim sterkari að þessu sinni en í fyrra.  Til SR hefur snúið aftur Daníel Kolar auk þess sem landsliðsvarnarmaðurinn Snorri Sigurbjörnsson er fluttur til landsins frá Noregi.  Einnig hefur þeim borist liðsstyrkur frá Ameríku en þaðan er kominn ungur og efnilegur leikmaður að nafni Robbie Sigurdsson, sem spilað hefur í unglingadeildum í Pittsburg. 

Björninn hefur einnig bætt í leikmannahópinn sinn en þangað er farinn Akureyringurinn Birkir Árnason, auk þess sem finnskur leikmaður úr 2.deildinni finnsku hefur gengið til liðs við þá.  Þá berast einnig fregnir af því að Sergei ætli að spila og við þjálfarataumunum hefur tekið amerískur þjálfari.


Í okkar leikmannahópi hefur hins vegar fækkað frá því í fyrra en Jón Gísla er fluttur til Danmerkur, Ingólfur Elíasson til Svíþjóðar og Jói Leifs er á leið vestur um haf.  Liðið lítur hins vegar ágætlega út, er nokkuð vel mannað og mannskapurinn heilt yfir borubrattur að vanda.  Við munum verja dolluna meða kjafti og klóm því við kunnum orðið ágætlega við hana, enda hefur hún verið hér í 15 af síðsutu 20 árum  -  hér í höfuðstað hokkísins.