U-20 lið Íslands í íshokkí komið í undanúrslit

U-20 lið Íslands í íshokkí vann Taíwan 7-2 í síðasta leik riðlekeppninnar á HM í Nýja-Sjálandi. Ísland náði með sigrinum öðru sæti riðilsins og spilar við Tyrkland í undanúrslitum á morgun.

Ísland byrjaði leikinn vel og og skoruðu fyrsta markið strax á þriðju mínútu leiksins þegar Edmunds Induss skoraði þegar Taíwan var í yfirtölu. Jón Árnason kom svo Íslandi í 2-0 um miðja lotuna en Ísland var mun sterkari aðilinn í leiknum. Ísland bætti svo við 5 mörkum í annarri lotunni gegn einu marki Taíwan en mörkin skoruðu Edmunds Induss, Elvar Ólafsson, Styrmir Maack, Hafþór Sigrúnarsson og Heiðar Krisveigarson. Taíwan skoraði svo eina mark þriðju lotunnar og lokastaðan 7-2. Edmunds Induss var valinn besti leikmaður íslenska liðsins í leiknum. Hafþór Andri Sigrúnarson var með þrjár stoðsendingar í leiknum auk marksins sem hann skoraði.

Ísland mætir Tyrklandi í undanúrslitum aðra nótt kl 4.00 á íslenskum tíma en Kína mætir heimaliðinu Nýja-Sjálandi í hinum undanúrslitaleiknum.