U-20 lið Íslands með sigur í fyrsta leik sínum á HM

U-20 lið Íslands í íshokkí sigraði Ísrael í nótt 3-0 í fyrsta leik sínum á Heimsmeistaramótinu í Nýja-Sjálandi. Hjalti Jóhannsson, Hafþór Andri Sigurúnarson og Axel Orongan skoruðu mörkin. 

Leikurinn fór fram kl 17.00 á staðartíma sem var kl 4 í morgun á okkar tíma en tímamunnurinn milli Íslands og Nýja Sjálands eru 13 tímar. Íslenska liðið var sannfærandi í leiknum og voru mun betri aðilinn. Ísland fékk óskabyrjun í leiknum þegar Hjalti Jóhannsson komst einn gegn markverði Ísraels og skoraði af miklu öryggi upp í markhornið. Spilið var svolítið stirt hjá Íslenska liðinu framan af en þeir bættu það upp með mikilli pressu og góðri vörn um allann ísinn. Spilið batnaði eftir sem á leið leikinn og áttu drengirnir margar gullfallegar sóknir í leiknum. Hafþór Andri Sigrúnarson skoraði annað mark Íslands með bombu af bláu línunni í yfirtölu í annarri lotunni. Íslenska liðið brunaði beint í sókn úr næst uppkasti og Axel Orongan þrumaði pekkinum upp í samskeytin úr þröngu færi og kom Íslandi í 3-0. Ísland hefði vel getað skorað fleiri mörk í leiknum en markvörður Ísraels var öflugur í markinu.

Næsti leikur Íslands er á sama tíma í nótt eða kl 4 á íslenskum tíma en þá mætum við Kína. Leikirnir eru sýndir í beinni útsendingu hér en þar eru einnig upptökur af öllum leikjum sem fram fara í mótinu svo það er líka hægt að horfa á leikina eftir að þeir hafa klárast.