Úrslitakeppni í íshokkí karla hefst á morgun

Fögnuður síðasta árs, ljósmynd:  Sigurgeir Haraldsson
Fögnuður síðasta árs, ljósmynd: Sigurgeir Haraldsson

Á morgun, sunnudaginn 27. febrúar, hefst úrslitakeppnin í meistaraflokki karla.  Til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn eftirsótta þarf að vinna þrjá leiki og fyrsti leikurinn fer fram hér á Akureyri kl. 17:00 á morgun.  Víkingar urðu deildarmeistarar á dögunum og tryggðu sér heimaleikjaréttinn í úrslitaeinvíginu en sá réttur getur vegið þungt fari keppnin alla leið í fimm leiki.   

 

Í ár er keppt um þennan titil í 20. sinn, þ.e.a.s. síðan deild með þremur liðum eða fleiri hóf göngu sína veturinn 1991 – 1992.  Á þessum árum hefur Skautafélag Reykjavíkur unnið 5 sinnum og Skautafélag Akureyrar 14 sinnum og því má segja að hefðin sé okkar megin.  Keppnin hefur hins vegar jafnast mikið síðustu ár og ef litið er til síðustu tólf ára, þ.e. síðan SR vann sinn fyrsta titil árið 1999 þá hefur SR unnið 5 sinnum en SA 7.

Margt hefur breyst á þessum árum og má þar fyrst og fremst nefna aðstöðuna, sem nú er til fyrirmyndar hjá öllum félögum þó flestir vildu meiri ístíma.  Geta leikmanna hefur einnig tekið stórstígum framförum á síðustu 20 árum og nú eru liðin farin að tefla fram full skipuðum 20 leikmanna liðum í meistaraflokki og hver staða skipuð íslenskum leikmönnum.  Því má halda fram með gildum rökum að hokkíið hafi jafnvel verið betra í deildinni fyrir 10 árum en það er nú, en t.d. á því herrans ári 2001 voru á annan tug erlendra leikmanna í deildinni og fáir íslenskir leikmenn sem gegndu lykilhlutverkum hjá liðunum.   Nú er hins vegar öldin önnur, mikið framboð er af frambærilegum heimamönnum og öll lið fullskipuð.

 

Leiktíðin hjá okkur í Skautafélagi Akureyrar hefur verið skemmtileg og aðeins öðru vísi en áður því að þessu sinni tefldum við fram tveimur liðum í Íslandsmótinu og skiptum liðinu upp í Jötna og Víkinga.   Meira verður skrifað um þá tilraun síðar en það er skemmst frá því að segja að Víkingar lentu í fyrsta sæti í deildinni og Jötnar í því þriðja og þar með sæti fyrir ofan Björninn, sem einmitt spilaði til úrslita í fyrra.   Það sýnir mikinn styrk félagsins að tefla fram tveimur liðum á sama mótinu og með þessum árangri.  Það sama var gert í kvennaflokki og en þær riðu á vaðið með tveimur liðum í fyrra.

Keppnin sem hefst á morgun verður vafalaust skemmtileg.  SA og SR hafa átt skemmtilegar og spennandi viðureignir í vetur.  Liðin er bæði sterk en styrkur þeirra liggur á ólíkum sviðum.  SA hefur á að skipa breiðari hóp og teflir fjórum fullskipuðum línum því sem næst jöfnum að styrkleika.  SR ræður ekki yfir sömu breidd en er skipað mjög sterkum lykil leikmönnum sem geta klárað leikina þegar mest ríður á. 

Dagskrá úrslitakeppninnar verður eftirfarandi:

1.       Sunnudagur 27. feb kl. 17:00 – Akureyri

2.       Þriðjudagur 1. mars kl. 20:15 – Reykjavík

3.       Fimmtudagur 3. mars kl. 19:00 – Akureyri

4.       Sunnudagur 6. mars kl. 13:15 - Reykjavík

5.       Þriðjudagur 8. mars kl. 19:00 – Akureyri

Áhugafólk um íshokkí er vinsamlegast beðið um að taka frá ofangreindar dags- og tímasetningar og afboða allt annað sem stangast gæti á.  Það skyldumæting í Skautahallirnar þegar stórviðburðir sem þessir eiga sér stað.