Víkingasigur í fyrsta leik, 6 - 3.

Lurkurinn í aksjón.  Ljósmynd Sigurgeir Haraldsson
Lurkurinn í aksjón. Ljósmynd Sigurgeir Haraldsson
Í kvöld spiluðu Víkingar við Björninn í Skautahöllinni á Akureyri og er þetta fyrsta viðureign liðanna með fullskipuð lið síðan þau mættust í úrslitum síðasta vor.  Heimamenn fóru vel af stað og stjórnuðu leiknum alla fyrstu lotuna en fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 7.mínútu en þar var á ferðinni Andri Freyr Sverrisson sem skoraði á fjarstöng eftir góða sendingu frá Rúnar Frey Rúnarssyni.  Tveimur mínútum síðar skoraði Andri annað mark úr frákasti eftir að nafni hans Mikaelsson skaut beint á markið úr uppkasti.  Þriðja og síðasta mark lotunnar skoraði svo Andri Mikaelsson eftir sendingar frá Rúnari og Birni Jakobssyni þegar Víkingar voru einir fleiri eftir að fyrirliði Bjarnarins fékk tveir mínútur fyrir að “handfjatla” pökkinn fullmikið.

 

Víkingarnir gengu kokhraustir til búningsklefa með 3 – 0 forystu eftir fyrstu lotu.  Í 2.lotu var hins vegar allt annað uppi á teningnum og Bjarnarmenn sóttu í sig veðrið og unnu lotuna 3 – 1.  Eina mark Víkinganna kom þegar liðið var einum fleiri og Björn Jakobsson skoraði frá bláu í gegnum traffík upp í skeytin.  Mörk Bjarnarmanna skoruðu Arnar Ingason, Hjörtur Björnsson og Matthías Sigurðsson en þetta reyndust einu mörk Bjarnarmanna í leiknum.

 

Staðan var 4 – 3 eftir 2. lotu og óvænt spenna kominn í leikinn.  Það var hins vegar aðeins eitt lið á vellinum í síðustu lotunni og Víkingarnir bættu við tveimur mörkum en bæði mörkin átti Lurkurinn Rúnar, annað óstuddur en hitt skoraði hann eftir góðan undirbúning Jóhanns Leifssonar.

 

Góður sigur í höfn og mikilvæg 3 stig í titilvörnina en gera má ráð fyrir því að hvert stig skipti máli í jöfnu Íslandsmóti.  Í fyrra réðust úrslit undankeppninnar ekki fyrr enn í síðast leik og því mikilvægt að mæta með hausana rétt skrúfaða á í hvern leik. 

Akureyrarliðin bæði, Víkingar og Jötnar, hafa farið vel af stað í mótinu og hafa borið sigur úr býtum í báðum sínum viðureignum.  Næsti leikur fer einnig fram hér á Akureyri og það um næstu helgi, en þá koma Bjarnarmenn aftur en að þessu sinni mæta þeir Jötnunum.

 

Mörk og stoðsendingar

SA:  Rúnar Rúnarsson 2/2, Andri Sverrisson 2/0, Björn Már Jakobsson 1/1, Andri Már Mikaelsson 1/1 og Jóhann Leifsson 0/1.

Björninn:  Gunnar Guðmundsson 0/2, Arnar Ingason 1/1, Matthías Sigurðsson 1/0, Andri Hauksson 0/1.

Brottvísanir

SA:  14mín

Björninn:  30mín (þar af einn 10mín dómur)

 

Aðaldómari var Ólafur Ragnar og á línunni voru Orri Sigmarsson og Dúi Ólafsson.