Ynjur - Björninn 6-2 (0-1, 4-1, 2-0)

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (24.01.2012)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (24.01.2012)


Ynjur sigruðu lið Bjarnarins í meistaraflokki kvenna á Íslandsmótinu í íshokkí í gærkvöldi, 6-2. Starfsmaður í refsiboxi skarst á nefi eftir að hafa fengið pökkinn í sig.

Bjarnarliðið mætti fámennt til Akureyrar, með átta útileikmenn og þar af einn lánsmann frá SR. Í hópinn bættist svo einn lánsmaður frá SA, Linda Brá Sveinsdóttir. Eins og fram hefur komið áður er aðalmarkvörður Bjarnarins og landsliðsmarkvörðurinn, Karitas Sif Halldórsdóttir, í fríi og því hefur Björninn teflt fram óreyndum markvörðum. Anna Birna Guðlaugsdóttir stóð í markinu og á hrós skilið því hún varði vel í leiknum. Hún tók við keflinu af Karitas og hefur vaxið og bætt sig með hverjum leiknum. Eins og staðan er í dag má búast við að hún verði annar af landsliðsmarkvörðum Íslands á HM í vor ásamt Guðlaugu, markverði Ynja.

Vanmat?
Ef til vill mættu Ynjur of sigurvissar til leiks vegna þess hve fámennt var í liði Bjarnarins, að minnsta kosti verður ekki hrópað húrra fyrir hokkíinu sem spilað var í fyrsta leikhluta. Lars hefur þó væntanlega komið réttum skilaboðum til leikmanna í fyrra hléinu því leikur Ynja skánaði eftir því sem á leið.

Gestirnir komust yfir snemma í fyrsta leikhluta með marki frá Karenu Þórisdóttur og héldu forystunni þar til í byrjun annars leikhluta þegar Diljá Sif Björgvinsdóttir jafnaði leikinn. Aftur komst Björninn yfir þegar Steinunn Sigurgeirsdóttir skroaði á 34. mínútu en aðeins rúmri mínútu seinna jafnaði Silvía Rán Björgvinsdóttir með góðu marki eftir að hún hafði unnið pökkinn í vörninni.

Ynjumörk á færibandi
Lokamínútur annars leikhluta og upphafsmínútur þess þriðja reyndust svo Ynjum drjúgar. Guðrún Kristín Blöndal og Silja Rún Gunnlaugsdóttir komu Ynjum í 4-2 í öðrum leikhluta og þær Diljá Sif Björgvinsdóttir og Eva María Karvelsdóttir bættu við tveimur mörkum í upphafi þriðja leikhluta. Síðasti stundarfjórðungur leiksins var svo markalaus - en einkenndist öðru fremur af traffík í refsiboxinu hjá Ynjum.

Það óhapp varð seint í leiknum að rétt eftir dómarakast hrökk pökkurinn yfir öryggisglerið, inn í refsiboxið og beint í nef starfsmanns sem þar stóð og hlaust af skurður, annað hvort eftir pökkinn eða gleraugu viðkomandi, en starfsfólk slysadeildar límdi saman nefið og hörkutólið Anna Kristveig (Kidda) var síðan mætt í Skautahöllina strax eftir leik til að gera upp söluna í sjoppunni.

Úrslitin: Ynjur - Björninn 6-2 (0-1, 4-1, 2-0)

Mörk/stoðsendingar
Ynjur - mörk/stoðsendingar
Eva María Karvelsdóttir 1/2
Diljá Sif Björgvinsdóttir 2/0
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0
Guðrún Kristín Blöndal 1/0
Silja Rún Gunnlaugsdóttir 1/0
Anna Sonja Ágústsdóttir 0/1
Refsingar: 20 mínútur

Björninn - mörk/stoðsendingar
Steinunn Sigurgeirsdóttir 1/1
Karen Þórisdóttir 1/0
Refsingar: 4 mínútur

Ynjur eru í öðru sæti deildarinnar með 10 stig eftir fimm leiki. Næsti leikur í mfl. kvenna verður strax á þriðjudagskvöld, 27. nóvember, þegar SA-liðin Ynjur og Ásynjur mætast, en Ásynjur eru forystu í deildinni, hafa 14 stig eftir fimm leiki. Leikur Ynja og Ásynja hefst kl. 19.30 og hér með lofum við hörkuleik eins og alltaf þegar þessi lið eigast við. Ynjur mæta síðan Birninum í Egilshöll laugardaginn 1. desember kl. 19.00.