Ynjur með sigur á Reykjavík

Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)
Úr leik liðanna fyrr á tímabilinu (mynd: Elvar P.)

Ynjur gerðu góða ferð í Laugardalinn í gær, laugardag, þegar þær sóttu lið Reykjavíkur heim. Það má segja að það hafi verið viðeigandi að heyra í flugeldasýningunni yfir Laugardalnum þegar þær innsigluðu 13:7 sigur sinn á Reykjavíkurliðinu. Þær eru nú einu einu stigi á eftir Ásynjum en Reykjavík sem fyrr án stiga.

Ynjurnar, sem spiluðu án Teresu og Ragnhildar, þurftu þó að hafa fyrir sigrinum og framan af var leikurinn jafn og jafnt á flestum tölum. Reykjavíkurstúlkur byrjuðu leikinn af krafti og voru komnar í 2-0 eftir rétt rúmar 2 mínútur. Ynjurnar virtust ekki alveg mættar í leikinn en tóku sig saman í andlitinu við þetta og stoppuðu áframhaldandi yfirgang Reykjavíkurstúlkna. Það var þó ekki fyrr en eftir rúmar átta mínútur sem fyrsta Ynjumarkið kom, flott mark frá Hilmu Bóel. Örfáum sekúntum seinna skoraði Sunna svo frábært mark eftir flotta stoðsendingu frá Silvíu. Staðan jöfn, 2-2. Stuttu síðar fékk Sigrún Agata Árnadóttir sína fyrstu af mörgum brottvísunum og Saga Margrét notaði tækifærið og kom Ynjum yfir. Reykjavík jafnaði þó aftur stuttu síðar en Saga skoraði þá aftur snilldarmark. Um þremur mínútum síðar skoruðu Reykjavíkurstúlkur fallegt mark en þær stöllur Sunna og Silvía komu pekkinum inn aftur með frábæru samspili sem Sunna lagði lokahöndina á. Reykjavík skoraði úr hraðaupphlaupi þegar rúmar 3 mínútur voru eftir af lotunni og um hálfri mínútu seinna skoraði Anna Karen eftir að Silvía hafði farið með pökkinn upp í hraðaupphlaup. Stöngin inn og staðan 6-5, Ynjum í vil eftir fyrstu lotu.

Í annarri lotu lögðu Ynjustúlkur svo grunninn að sínum góða sigri. Saga skoraði snyrtilegt mark í yfirtölu en Reykjavíkurstúlkur svöruðu fljótlega eftir þæfing fyrir framan mark Ynja, staðan 7:6 fyrir Ynjur. Þar með var marki Ynja nánast lokað og okkar stúlkur skoruðu þrjú mörk til viðbótar það sem eftir lifði lotu. Fyrst Sunna með glæsilegu þrumuskoti, svo Silvía með góðu marki og síðan aftur með frábæru marki rétt um miðbik lotunnar.

Í síðustu lotunni héldu Ynjustúlkur uppteknum hætti og héldu áfram að bæta við mörkum. Sunna skoraði 6-11 og Hilma 6-12. Reykjavíkurstúlkur minnkuðu muninn með þrumuskoti um miðja lotuna en Berglind Rós innsiglaði sigur liðsins með flottu marki þegar aðeins rétt um hálf mínúta var eftir af leiknum. Glæsilegur sigur!

Ynjur spiluðu öllum sínum útispilurum í gær og fengu ungu stúlkurnar, þær yngstu aðeins 12 ára, að spila allan leikinn. Þær stóðu sig mjög vel og fengu bara á sig 1 mark, strax í upphafi leiksins.

Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, var fjarri góðu gamni þar sem hann sem hann var á sama tíma að leiða annað þriðja flokks lið SA til síns fyrsta sigurs í deildinni. Leikurinn endaði með jafntefli en SA Jarlar sigruðu í vítakeppni. Þar á eftir var landsliðsæfing U20 í Egilshöll en Jussi einmitt þjálfar það lið. Vaktina í Laugardalnum stóð hins vegar Sigurður Sigurðsson sem var ánægður með leikinn og sérstaklega hvað ungu stúlkurnar stóðu sig vel.

Sunna var markahæst Ynja að þessu sinni með 4 mörk, Saga með 3, Silvía og Hilma 2 og Berglind og Anna með 1 hvor.