Ynjur og 2. flokkur sóttu stig í Laugardal

Ynjur spiluðu tvívegis við lið SR um helgina og sigruðu í báðum leikjum, lokatölur 10-4 og 9-1. 2. flokkur spilaði að sama skapi tvo leiki við SR, töpuðu fyrri leiknum 9-2 en unnu seinni leikinn 5-4.

Leikir Ynja og SR voru mun jafnari en lokatölur gefa til kynna en liðin áttu til að mynda álíka mörg skot á mark í leikjunum tveimur. SR tefldi fram sterku liði en þar má helst nefna þær landsliðstöllur Steinunni Sigurgeirsdóttur, Flosrúni Jóhannesdóttur og Sigríði Finnbogadóttur. Ynjur hafa það að vopni að hafa spilað oft í vetur við sterkt lið Ásynja og hafa greinilega ýmislegt lært af þeim viðeignum. Ynjur stóðu vörnina gríðarlega vel um helgina en lið SR hélt oft á tíðum pekkinum vel í sóknarsvæðinu en Ynjur voru mjög fljótar að refsa og nýttu færin sín vel. Silvía Björgvinsdóttir fór fyrir Ynjum í markaskorunn en hún skoraði 8 mörk í fyrri leiknum og bætti við 4 mörkum í þeim síðari. Þá skoruðu Kolbrún Garðarsdóttir og Guðrún Viðarsdóttir sitthvor 3 mörkin um helgina. Lið Ynja spilaði mjög vel heilt yfir um helgina en ekki má gleyma framlagi Elise í markinu sem var oft óþægur ljár í þúfu heimliðsins en hún varði frábærlega í báðum leikjum og er að stimpla sig inn sem einn allra sterkasti markvörður landsins í kvennaflokki.

Í öðrum flokki vantaði máttarstólpa liðsins þá Ingþór Árnason og Sigurð Reynisson en ungt lið SA átti litla möguleika í fyrri leik sínum við SR. Liðið byrjaði leikinn illa og gerðu sig seka um klaufalega mistök og ekki nægilega mikla baráttu en SR náði góðri fjögura marka forystu. Okkar menn spiluðu mjög vel í annarri lotu sem endaði 1-1 en náðu ekki að halda sama dampi í þeirri þriðju og töpuðu lotunni 4-1. Mörk liðsins skoruðu Heiðar Krisveigarsson og Egill Birgisson.

Í seinni leiknum spilaði liðið mun betur og sóttu mun meira en fyrri daginn. SR var með 1-0 forystu eftir fyrstu lotu en SA vann aðra lotuna 3-1 með marki frá Matthíasi Stefánssyni og tveimur mörkum frá Sigurði Þorsteinssyni. Kristján Árnasson kom SA í 4-2 í byrjun 3. Lotu í sínum fyrsta leik með 2. Flokki en SR-ingar jöfnuðu metin í 4-4 áður en Einar Grant skoraði sigurmarkið tveimur mínútum fyrir leikslok. Frábær frammistaða hjá öllu liðinu skóp sigurinn en sérstaklega vel spiluðu nýliðarnir tveir, Gunnar Arason og Kristján Árnason.