Ynjur og 3. flk með sigra á SR í Reykjavík um helgina

Saga og Guðmunda með pekkina sína
Saga og Guðmunda með pekkina sína

Ynjur unnu þægilegan sigur á SR um helgina þar sem lokatölur urðu 17-4 en leikurinn var sögulegur fyrir aðrar sakir. 3. flokkur gerði einnig góða ferð og sigruðu SR í tvígang þar sem þeir spiluðu á laugardag og sunnudagsmorgun.

Ynjur áttu ekki í teljandi vandræðum með SR í leiknum á laugardag og sigruðu með nokkrum yfirburðum. Silvía Björgvinsdóttir var atkvæðamest Ynja að vanda en hún skoraði 5 mörk í leiknum og hefur þá skorað 33 mörk á tímabilinu í 11 leikjum. Silvía er með rétt tæp 6 stig í leik að meðaltali í vetur sem verður að teljast nokkuð mögnuð tölfræði. Leikurinn var einnig sögulegur fyrir þær sakir að þær mæðgur Guðrún Kristín Blöndal og Saga Margrét Sigurðardóttir spiluðu í fyrsta skipti saman í meistaraflokki og ekki skemmdi það fyrir að Saga skoraði einmitt sitt fyrsta meistaraflokks mark í leiknum.  Guðmunda Ýr Stefánsdóttir skoraði einnig sitt fyrsta mark í meistaraflokki en þetta eru eflaust ekki síðustu mörk þessara stúlkna.

3. flokkur vann SR í báðum leikjunum með markatölunum 6-4 á laugardagskvöld og 5-2 á sunnudagsmorgun. Fyrri leikurinn var erfiðari leikur þar sem að liðið missti bæði Gunnar Aðalgeir í fyrstu skiptingu vegna veikinda og Kolbrún Garðarsdóttir meiddist á hendi sem þýddi miklar hræringar á bekknum. Einar Kristján Grant og Axel stukku í vörnina í eina lotu hvor og hjálpuðu liðinu. Síðari leikurinn var mjög vel spilaður hjá liðinu en bæði Gunnar og Kolbrún tóku þátt í þeim leik. Halldór Skúlason var færður í sóknina og stóð sig vel en hann skoraði fyrsta mark leiksins. Einar Grant fór aftur á móti í vörn og átti tvær stórglæsilegar sendingar sem urðu að mörkum. Jakob var mjög sterkur í markinu og átti stórann þátt í sigrunum.

Saga Margrét og Guðmunda Ýr með pekkina sína.

Mæðgurnar sáttar saman eftir leik.