Karfan er tóm.
Þrátt fyrir að hafa oft leikið betur náðu Víkingar á endanum að leggja Björninn að (s)velli í fyrsta leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í íshokkí.
Leikurinn var rólegur framan af, ef hægt er að nota það orð yfir íshokkíleik. Lítið var um refsingar í fyrsta leikhluta og fyrri hluta annars leikhluta, en það átti eftir að breytast þegar hitnaði í kolunum undir lokin.
Víkingar náðu forystunni eftir tæplega fimm mínútna leik þegar Ben DiMarco skoraði eftir góðan undirbúning frá Jóhanni Má Leifssyni og Andra Frey Sverrissyni. Þrátt fyrir markið virtist eitthvað vanta í leik Víkinga, einhvern neista, og þeir hafa vissulega oft leikið betur. Bjarnarmenn voru baráttuglaðari og uppskáru í öðrum leikhluta með mörkum frá Thomasi Nielsen og Birki Árnasyni.
Snemma í þriðja leikhluta jafnaði Be DiMarco leikinn með sínu öðru marki, en Ólafur Björnsson kom gestunum aftur yfir þegar um tíu mínútur voru til leiksloka. Þessar tíu mínútur voru líklega viðburðaríkari en hinar 50 sem liðnar voru. Einn leikmaður úr hvoru liði var sendur í sturtu eftir átök og á tímabili rúmaði refsiboxið varla þá Bjarnarmenn sem þangað voru sendir. Víkingar náðu í tvígang að skora á Bjarnarmenn þegar þeir áttu mann eða menn í boxinu.
Fyrst jafnaði Jóhann Már Leifsson leikinn í 3-3 þegar tæplega sjö mínútur voru til leiksloka og tæpum þremur mínútum fyrir leikslok skoraði Björn Már Jakobsson fjórða mark Víkinga. Lokamínúturnar urðu æsispennandi og litlu munaði að gestunum tækist að jafna - en Rett Vossler neitaði þeim um þá ánægju. Lokatölur: Víkingar - Björninn 4-3 (1-0, 0-2, 3-1).
Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Ben DiMarco 2
Jóhann Már Leifsson 1/2
Björn Már Jakobsson 1/0
Ingvar Þór Jónsson 0/2
Andri Freyr Sverrisson 0/1
Orri Blöndal 0/1
Stefán Hrafnsson 0/1
Refsimínútur: 35
Varin skot: 22
Björninn
Thomas Nielsen 1/1
Birkir Árnason 1/0
Ólafur Björnsson 1/0
Brynjar Bergmann 0/1
Falur Guðnason 0/1
Lars Foder 0/1
Refsimínútur: 53
Varin skot: 36
Annar leikur liðanna verður í Egilshöll á sunnudag og sá þriðji á Akureyri á þriðjudagskvöld.
Fleiri myndir frá Elvari Frey Pálssyni eru komnar í albúm hér á síðunni - smellið á myndina til að opna albúmið:
Sigurgeir Haraldsson er einnig kominn með albúm inn á vefinn okkar, smellið á myndina til að opna albúmið: