Karfan er tóm.
Síðastliðinn sunnudag tryggðu Danir sér heimsmeistaratitil í krullu yngri leikmanna (undir 21 árs) með 9-6 sigri á Kanadamönnum í úrslitum. Í liði Dana var meðal annars Martin Monhart Poulsen, sá sami og kom hingað til Akureyrar með lið sitt og sigraði á Ice Cup 2008. Hann var þó sá einu úr því liði sem var í HM-liðinu núna en liðsmenn voru þeir Rasmus Stjerne, Troels Harry, Mikkel Krause, Martin Poulsen, Oliver Dupont og þjálfarinn Gert Larsen. Danska liðið lenti í 2. sæti í undankeppninni, vann sjö leiki en tapaði tveimur. Í svokölluðu "page-playoff" undanúrslitum þar sem léku 1-2 og 3-4 töpuðu Danir fyrir Kanada en unnu síðan Bandaríkjamenn sem áður höfðu unnið Svía í 3-4 leiknum. Danir fóru því í úrslitaleikinn gegn Kanada og unnu hann 9-6.
Í viðtali á vef Alþjóða krullusambandsins segir fyrirliðinn, Rasmus Stjerne, að fyrir fjórum mánuðum hafi hann lesið bók þar sem stóð að ef maður gæti teiknað það upp þá gæti maður látið sig dreyma um það og þá gæti maður látið drauminn rætast. Það var einmitt það sem hann gerði. Stjerne var þarna að keppa í sjötta sinn á HM-yngri leikmanna og reyndar það síðasta því nú er hann orðinn of gamall til að keppa þar oftar.
Raunar má bæta við þessa "tengslafrétt" að sá sem þetta ritar naut þeirrar ánægju að spila í liði með einum þessara leikmanna, Mikkel Krause, á Tårnby Cup 2007.
Upplýsingar um mótið - smellið hér.
Fréttin á vef Alþjóða krullusambandsins - smellið hér.