2 sigrar um nýliðna helgi hjá SA

Leikmenn SA uppskáru ríkulega í suðurferð nýliðinnar helgi. Víkingar mættu nýju liði Esjunar í fyrsta sinn í Laugardalnum, lokatölur leiksins urðu 8-3. Á sama tíma spilaði 3. Flokkur SA við Björninn í Egilshöll og unnu þeir sinn leik 8-1.  Fyrir leikinn í Laugardalnum söng karlakór Esjunnar þjóðsönginn fyrir viðstadda og ljóst að nýji græni liturinn hefur ekki aðeins hleypt fersku blóði í deildarkeppnina heldur er liðið líka með sína eigin sérstæðu stemmningu í kringum sig sem gaman er að en öll umgjörð í kringum leikinn var til fyrirmyndar.

 

Leikurinn í Laugardalnum fór frekar rólega af stað, liðin skiptust á að sækja í upphafi leiks en bæði lið fengu ágætis marktækifæri. Um miðbik lotunnar tóku Víkingar leikinn í hendur sér á meðan leikmenn Esjunar lentu í refsivandræðum. Fyrsta mark leiksins kom í Power Play  þegar Sigurður Reynisson fylgdi eftir skoti Ingþórs Árnasonar.  Víkingar héldu áfram að setja nokkra pressu á lið Esjunar og uppskáru 2 Power Play til viðbótar án þess að skora en Esjan fékk þó bestu færin þar sem þeir komust tvívegis yfirmannaðir upp að marki Víkinga meðan þeir léku einum manni færri en Rett hratt báðum áhlaupunum með góðri markvörslu.

Í annarri lotu komu svo mörkin á færibandi en Víkingar skoruðu 5 mörk á 14 mínútna kafla án þess að Esjan næði að svara fyrir sig og komu 5 fystu mörkin leiksins úr Power Play. Ben Dimarco skoraði fyrsta mark lotunnar og annað mark Víkinga með góðu skoti utan af ísnum í fjærhornið. Ben var svo aftur á ferðinni stuttu síðar þegar hann skoraði mark þar sem hann stóð aftan við marklínuna en speglaði pekkingum í markið af markmanni Esjunar. Sigurður Reynisson stal stuttu seinna svo pekkingum af leikmanni Esjunar á hættulegum stað og skaut í skrefinu án þess að Daníel markvörður Esjunnar kæmi vörnum við. Sigurður var svo aftur á ferðinni stuttu síðar og átti sitt 3. mark í Power Play þegar hann skoraði úr slappskoti milli fóta Styrmis í marki Esjunar sem var þá nýkominn inná í stað Daníels. Jóhann Már Leifsson skoraði svo síðasta mark lotunnar þegar hann fékk sendingu á fjærstöng og skoraði með viðstöðulausu skoti.

Í þriðju lotunni opnaðist leikurinn aftur og bæði lið fengu hættuleg færi en fyrsta mark lotunnar skoraði Einar Valentin en það var einstaklega fallegt þar sem hann tók vel á móti stungusendingu Ingvars Jónssonar inn fyrir vörn Esjunnar og afgreiddi pökkinn snyrtilega upp í vinstra hornið. Stuttu síðar fullkomnaði Ben Dimarco þrennuna sína og staðan orðin 8-0. Leikurinn opnaðist töluvert eftir þetta og Esjan skoraði 3 síðustu mörk leiksins með 2 mörkum frá Agli Þórmóðssyni og einu frá Gunnari Guðmundssyni.

Þrátt fyrir sannfærandi úrslit gegn Esjunni um helgina má búast við því að Esjan eigi aðeins eftir að sækja í sig veðrið þegar líður á tímabilið. Það eru mikil gæði í nýja liðinu en greinilegt að nokkuð vantar upp á leikæfingu hjá mörgum leikmönnum. Erlendu leikmennirnir eru enþá að venjast fjallaloftinu en tilkoma þeirra eykur verulega breiddina í vörninni sem hefur verið akkilesar hæll liðsins til þessa og ljóst er að liðið hefur alla burði til þess að vera með í titilbaráttunni með þennan hóp leikmanna.

Nú hafa öll liðin leikið í deildinni mæst og SA-Víkingar eru efstir í deildinni með 7 stig. Björninn er í öðru sæti með 5 stig og Esjan og SR með 3 stig hvort. Næsti leikur Víkinga er um helgina þegar þeir taka á móti Birninum í Skautahöllinni á Akureyri.