3-0!!!

Mynd: Elvar Freyr Pálsson
Mynd: Elvar Freyr Pálsson


Íslandsmeistarar! SA Víkingar lögðu Björninn, 5-3, í þriðja leik liðanna á Íslandsmóti karla í íshokkí og lönduðu Íslandsmeistaratitlinum með sannkölluðum glæsibrag, unnu einvígið 3-0. 

SA náði upp betra spili í fyrsta leikhluta og átti hættulegri færi. Refsingarnar féllu allar í skaut gestunum framan af fyrsta leikhluta án þess þó að Víkingar næðu að nýta sér að vera einum fleiri. En Víkingar uppskáru þó áður en fyrsta leikhluta lauk. Sigurður Reynisson hélt uppteknum hætti frá öðrum leiknum og skoraði fyrsta mark Víkinga þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum eftir undirbúning Jóns Benedikts Gíslasonar og Stefáns Hrafnssonar. Það var ekki fyrr en á lokamínútum fyrsta leikhluta sem Víkingar fengu sína fyrstu refsingu en þeim tókst að verjast einum færri og staðan áfram 1-0.

Björninn bítur frá sér
Bjarnarmenn komu mun ákafari og ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta. Eftir fimm mínútna leik skoruðu þeir tvö mörk á nokkurra sekúndna millibili og áhorfendur setti hljóða um stund. En það var ekki lengi, enda nóg eftir af leiknum. Ben DiMarco, markahæsti leikmaður deildarinnar, jafnaði leikinn alveg um miðbik annars leikhluta með undirbúningi frá Jóhanni Má Leifssyni. Aftur komust Bjarnarmenn yfir, með gjöf frá SA til Bjarnarins, sem Bóas Gunnarsson þáði með þökkum.

Víkingar hresstust og reynslan sagði til sín
Eftir að hafa fengið á sig þrjú mörk í öðrum leikhluta komu heimamenn hressari inn í þann þriðja. Eftir tæpar fimm mínútur skoraði Jón Benedikt Gíslason glæsilegt mark, vann dómarakast, skautaði með pökkinn fyrir aftan markið og til hliðar, snéri sér við og skaut glæsilegu skoti sem markvörður Bjarnarins átti lítinn möguleika á að verja. Staðan orðin 3-3 áhorfendur sem fylltu Skautahöllina tóku vel við sér. Korter eftir og allt gat gerst.

Ben DiMarco náði síðan forystunni fyrir Víkinga þegar tæpar níu mínútur voru eftir með frábæru skoti úr þröngu færi, 4-3, og vélin hætt að hiksta.

Skömmu eftir markið fengu tveir Víkingar að fara í refsiboxið með stuttu millibili og í rúma hálfa mínútu voru Bjarnarmenn fimm á þrjá, en tókst ekki að nýta sér það. Aftur lenti leikmaður Víkinga í refsiboxinu á lokakaflanum, aðeins rúmum tveimur mínútum fyrir leikslok, en það kom ekki að sök. Vörnin hélt. Og gott betur en það, því á lokasekúndunum stal fyrirliðinn Jóhann Már Leifsson pökknum, brunaði að markinu og negldi síðasta naglann í kistuna. Björninn var fallinn, SA Víkingar Íslandsmeistarar 2014.

Fréttaritari hefur ekki nákvæmar upplýsingar en er nokkuð viss um að einvígi um Íslandsmeistaratitilinn hefur ekki endað 3-0 síðan á 20. öldinni. Þetta er í 17. sinn sem lið SA vinnur Íslandsmeistaratitil karla. Aðeins sex sinnum hafa Reykjavíkurfélögin unnið, SR fimm sinnum og Björninn einu sinni.

Mörk/stoðsendingar
Víkingar
Ben DiMarco 2/0
Jóhann Már Leifsson 1/2
Jón Benedikt Gíslason 1/1
Sigurður Reynisson 1/0
Stefán Hrafnsson 0/1
Refsimínútur: 39
Varin skot: 18

Björninn
Bóas Gunnarsson 1/0
Ólafur Björnsson 1/0
Thomas Nielsen 1/0
Andri Helgason 0/1 
Falur Guðnason 0/1
Lars Foder 0/1 
Refsimínútur: 35
Varin skot: 35