7 á hættuslóð

eða,  “Þegar stelpurnar fóru suður til að taka við bikarnum”

Eins og fram hefur komið á sasport.is var mikið um að vera hjá íshokkíliðum Skautafélagsins um helgina. Einn af hápunktunum var ferð meistarflokks kvenna til Reykjavíkur, í gær laugardaginn 16. apríl. Þar mættu stelpurnar stöllum sinum í Birninum í Egilshöll í síðasta leik keppnistímabilsins.

 

Um kl. 14:00 lögðu 7 liðsmenn kvennaliðsins af frá Skautahöllinni í 9 manna bíl með kerru frá Bílaleigu Akureyrar. Sjálfboðaliðssveit skautafélagsins var undir miklu álagi vegna anna svo fengin var gamall karl ofan af brekku til að aka bílnum, en talið var að hann rataði alla leið suður.

 

Þegar hópurinn lagði af stað skein sól í heiði, létt var yfir mannskapnum og góð “stemming” í bílnum. Ferðin gékk að óskum framan af og eftir 2,5 stunda akstur var áð í Staðarskála til að sefa sárasta hungrið. Vitað var að leiðindaveður var í Reykjavík, rok og rigning, en ferðalangar voru í sambandi við liðsmenn meistarflokks Bjarnarins sem voru á leið norður þennan sama dag. Ferðalangarnir urðu ekki varir við þetta veður fyrir en komið var undir Hafnarfjall, en vindhæð var þá orðin nokkuð mikil. Eins og mörgum er kunnugt liggja nokkrir erfiðir vindstrengir yfir veginn í SV áttum og vindhviður þar eru vara samar. Í einum slíkum streng náði Kári taki á kerrunnni og hreinlega reif hana af bílnum og henti út fyrir veg. Við þetta opnaðist kerrann að hluta og allar kylfurnar og nokkrar töskur hentust út. Kylfurnar kubbuðust í sundur, en líklega hafa þær verið komnar hálfar út úr kerrunni í einhverri veltunni. Tvær töskur hreinlega sprungu í hamagangnum og fauk dótið úr þeim út um allt. Eftir að hópurinn hafði jafnað sig lítillega á áfallinu var farið í björgunarleiðangur. Lögreglu var tilkynnt um atburðinn og komu tveir laganna verðir og aðstoðuðu hópinn við að bjarga því sem bjargað varð. Kerran var illa löskuð og ekki til neins nýtileg og því var afgangnum af dótinu troðið inn í bílinn og svo haldið af stað í humátt að Reykjavík

 

Fréttir af hremmingum hópsins bárust eins og eldur í sinu um íshokkísamfélagið. Fjöldi manna fóru í að útvega þann búnað sem týndist og/eða eyðilagðist svo stelpurnar gætu spilað sinn leik um kvöldið. Stelpurnar vilja koma á fram sérstöku þakklæti til drengjanna í 5. flokki sem buðust til að lána þeim “allt sitt hokkídót!” Með fulltingi 5. flokks SA, ÍHÍ, stelpnanna í Birninum og Bigga Sveins tókst að útvega öllum kylfur og galla.

 

Ljóst var fyrir nokkuð löngu að SA yrðu íslandsmeistarar í kvennaflokki en þær höfðu unnið alla leikina til þessa. Engin áhugi var hins vegar á því að taka við bikarnum eftir tapleik svo ldagskipunin var að “berjast til síðasta manns”. Jafnframt var vitað að stelpurnar í Birninum vildu ná einhverju út úr keppnistímabilinu og ætluðu sér ekkert annað en sigur.

 

Birnurnar byrjuðu leikinn með látum og pressuðu stíft án þess að skapa sér opin færi. Er leið á leikhlutann fóru S.A. stelpurnar að ná áttum og leikurinn jafnaðist. S.A. skoraði fyrsta markið á 14. mínútu og var þar að verki Steinunn “Stony” Sigurgeirsdóttir með aðstoð frá Kolbrúnu Sigurlásdóttur. Staðan 1-0 eftir 1. leikhluta. Leikurinn var í járnum í 2. leikhluta og skiptust liðin á að skora. Björninn komst í 2-1 og svo 3-2 en stelpurnar jöfnuðu á 39. mínútu svo staðan var 3-3 eftir 2 lotur. Í upphafi 3. leikhluta geystist Jóhanna upp svellið og skoraði 4. mark SA en Jóhanna hafði einmitt skorað jöfnunar markið rúmri mínútu fyrirlok 2. leikhluta. Stelpurnar bættu svo við 2. mörkum áður en Bjarnarstúlkur minkuðu munin í 6-4 en það urðu lokatölur leiksins. Í heild var leikurinn frábær skemmtan bæði liðin léku vel og börðust eins og ljón. Dómari leiksins Berglind Ólafsdóttir stóð sig frábærlega.

 

Leikurinn í tölum:

Björninn-SA 4-6 (0-1)(3-2)(1-3)

 

Mörk/Stoðs Bjarnarins: Hrafnhildur Ýr (2/0), Agga (2/0), Hanna (0/2)

Mörk/Stoðs Bjarnarins: Steinunn (1/1), Kolla (0/1), Birna (1/0), Jóhanna (2/0), Jónína (1/0), Solla “ég ætla að skora” Smára (0/1)