Aðventumótið í krullu - fyrstu umferðir í kvöld
01.12.2010
Í kvöld hefst Aðventumót Krulludeildar. Mótið er opið öllum, nóg að mæta í Skautahöllina kl. 21 til skráningar.
Fyrstu tvær umferðir Aðventumótsins fara fram í kvöld. Eins og áður hefur komið fram er um einstaklingsmót að ræða, þ.e. mótið er opið öllum, ekki þarf að skrá sig fyrirfram heldur aðeins að mæta í Skautahöllina kl. 21 í kvöld. Síðan er dregið saman í lið fyrir hverja umferð. Frjáls mæting er í mótið, þ.e. hver og einn getur leikið allt frá einni umferð upp í átta. Leikdagar Aðventumótsins verða 1., 8., 13., og 15. desember.
Reglur mótsins verða sem hér segir:
- Aðventumótið er einstaklingskeppni, þannig að hver leikmaður fær í hvert skipti þau stig sem hans lið ávinnur sér.
- Hver leikur er þrjár umferðir, jafntefli eru leyfð.
- Kastað er upp á hvort liðið hefur val um síðasta stein í upphafi leiks.
- Leiknir eru tveir leikir hvert keppniskvöld.
- Gefin eru 10 stig fyrir sigur, 5 stig fyrir jafntefli, 2 stig fyrir hverja unna umferð og 1 stig fyrir hvern skoraðan stein.
- Fyrir fyrstu umferð er dregið saman í lið, 3-4 í liði eftir því hve margir mæta til leiks. Liðsmenn koma sér sjálfir saman um röð leikmanna í leik.
- Fyrir aðrar umferðir er þátttakendum raðað í hópa eftir stöðunni og síðan dregið saman í lið, t.d. þannig að ef sextán leikmenn taka þátt (fjögur lið) eru fjórir efstu í einum hópi og geta ekki lent saman í liði, fjórir næstu eru saman í hópi og geta ekki lent saman í liði o.s.frv. Fjöldi hópa og fjöldi í hóp markast af fjölda þátttakenda og liða hverju sinni.
- Fjögur bestu skor hvers þátttakanda gilda þegar upp er staðið.
- Verði leikmenn jafnir að stigum miðað við fjögur bestu skor er fimmta besta skori bætt við og svo framvegis þar til sigurvegari fæst.