Afmæli Skautahallarinnar

Útisvellið góða
Útisvellið góða

Núna í desember verða liðin 10 ár frá því skautahöllin á Akureyri var tekin í notkun.  Það var á aðfangadag árið 1999 sem fyrstu menn mættu á ísinn en þar voru á ferðinni hokkímenn sem héldu í sína árlegu hefð að spila svokallað jólahokkí.  Skautahöllin var þó ekki formlega vígð fyrr í 25. mars 2000 þegar forsetinn Ólafur Ragnar Grímsson vígði höllina með pompi og prakt, en vígslan var hluti af hátíðardagskrá Vetraríþróttahátíðar árið 2000.

 

Það voru mikil stakkaskipti fyrir norðlensk skautafólk og krulluspilara að fá loksins þak yfir höfuðið.  Íþróttir félagsins höfðu verið háðar duttlungum veðurguðanna allt of lengi og með árunum og hlýnandi loftslagi var nánast orðið ómögulegt að halda úti svelli undir berum himni.  Við höfðum þó notið þess að vera með vélfryst svell síðan í janúar árið 1988, sem á þeim tíma var mikil bylting fyrir okkur og segja má að við höfum barist hetjulega við veðrið í gegnum árin.  Það má leiða líkum að því að við hefðum ekki getað haldið áfram starfsemi félagsins hefði Skautahöllin ekki komið til.  Síðasti veturinn okkar án hússins var mjög erfiður og þau voru mörg skiptin sem þurfti að byggja ísinn aftur upp frá grunni.

Á þessum 10 árum hefur starfsemi félagsins blómstrað.  Mikil og fjölbreytt starfsemi fer fram í húsinu og auk íþróttanna þriggja, krullu, listhlaups og íshokkí eru þar opnir tímar fyrir almenning 5 daga vikunnar.  

Meðfylgjandi mynd er af útisvellinu góða sem við notuðum frá því í janúar 1988 og fram til vorsins 1999.  Fyrir þá sem ekki vita, er Skautahöllin byggð yfir gamla svellið á Krókeyri.  Það var Sigurgeir Haraldsson sem tók myndina.