Alþjóðlegt íshokkímót kvenna (NIAC) í Skautahöllinni um helgina

Alþjóðlegt íshokkímót kvenna hefst í dag í Skautahöllinni á Akureyri en spilað verður bæði föstudag og laugardag. Þetta er hið svokallaða NIAC mót (Northern Iceland Adventure Cup) sem nú er haldið í fimmta skiptið. Kvennaliðið Ice Dragon frá Toronto í Kanada kemur í heimsókn en á þeim fimm árum sem mótið hefur verið haldið hafa komið hingað kvennalið frá Englandi, Svíþjóð, Danmörku og Kanada.

Fyrir utan hina erlendu gesti kemur lið frá Skautafélagi Reykjavíkur að sunnan. Þá eru heimamenn, Valkyrjur, nú orðnar svo margar að hægt er að skipta þeim upp í tvö lið sem munu spila leikina undir nöfnunum Valkyrjur og Freyjur.

Þegar NIAC mótið var upphaflega haldið var markmiðið að skapa vettvang fyrir íslenska kvennalandsliðið til keppni en það hefur síðan færst mjög í aukana að áhugalið taki þátt. Sú breyting hefur komið sér sérlega vel fyrir Valkyrjur sem eru eina kvennalið landsins í íshokkí sem ekki spilar á Íslandsmótinu.

Í janúar sl. fögnuðu Valkyrjur sex ára afmæli sínu en liðið var upphaflega stofnað af nokkrum hokkímömmum sem höfðu áhuga á að leika íþróttina. Þremur árum síðar tóku Valkyrjur svo fyrst þátt í kvennamóti og hafa síðan keppt á tveim mótum á ári þar til í vetur þegar liðið hélt utan í keppnisferð og varð þar með fyrsta íslenska kvennaliðið utan meistaraflokka til að spila á erlendri grund. Mótið í Toronto var haldið af grasrótarsamtökunum The Women of Winter, eða Vetrarkonurnar, en markmið samtakanna er að efla þátttöku kvenna í íshokkí. Í ár héldu samtökin einmitt upp á tíu ára afmælið. Þegar er hafinn undirbúningur að annarri utanlandsferð Valkyrja sem væntanlega verður til Finnlands að ári þar sem kvennaliðið OKK Mamas verður heimsótt.

Framfarir hafa verið stöðugar hjá Valkyrjunum og liðið er bæði farið að skora mörk og vinna leiki. En markmiðið er samt sem áður fyrst og fremst það að hafa gaman af leiknum. Þjálfari liðsins í vetur hefur verið Rósa Guðjónsdóttir, fyrrum landsliðskona í íshokkí.

Dagskráin:

Föstudagurinn 15. maí

18.00-18.50 Valkyrjur – Ice Dragons

18.50-19.50 SR – Freyjur

19.55-20.45 Freyjur – Ice Dragons

21.00-21.50 Valkyrjur – SR

Laugardagurinn 16. maí

9.00-9.50 Freyjur – Valkyrjur

10.05-10.55 Ice Dragons – SR

17.00-17.55 Leikið um bronsið

18.10-19.00 Leikið um gullið

Hópmynd sem tekin var á NIAC-mótinu árið 2014 (mynd: Ásgrímur Ágústsson)