Árs- og afmælishátíð SA: Frábær skemmtun

Myndir: Ásgrímur Ágústsson
Myndir: Ásgrímur Ágústsson

Jón Björnsson gerður að heiðursfélaga. Líklega fjölmennasta árshátíð SA frá upphafi.

Árs- og afmælishátíð Skautafélags Akureyrar var haldin í Hlíðarbæ að kvöldi miðvikudagsins 4. apríl. Þar var 75 ára afmæli félagsins fagnað, viðurkenningar veittar og að sjálfsögðu stiginn villtur dans fram á nótt að loknum flottum veitingum sem Helgi Gunnlaugsson töfraði fram ásamt aðstoðarfólki.

Fjölmennasta hátíðin hingað til?

Það var mál manna að sennilega væri þetta fjölmennasta árshátíð félagsins, en um eða yfir 120 manns mættu í Hlíðarbæ og skemmtu sér hið besta. Ákveðið var efla félagið og félagsandann með því að halda sameiginlega árshátíð alls félagsins fyrir alla félagsmenn, iðkendur og velunnara tólf ára og eldri. Mætingin var góð, en þó vantaði nánast alveg meistaraflokk karla í hokkí þar sem margir úr þeim hópi voru staddir í Danmörku við landsliðsæfingar. Krullumenn voru heldur ekki fjölmennir á hátíðinni. Sameining yngri og eldri félagsmanna á þennan hátt þótti takast vel og myndaðist skemmtileg stemning.

Skemmtileg skemmtiatriði

Hátíðin hófst með borðhaldi og var þar í boði hlaðborð að hætti félagskokksins, Helga Gunnlaugssonar. Að loknum aðalrétti gæddu gestir sér síðan á afmælistertu. Afbragðs góðar veitingar þar á ferð og gerðu gestir matnum góð skil. 

Um það bil sem allir höfðu fengið eitthvað að borða stigu þeir fóstbræður og félagar, Elvar Jónsteinsson og Rúnar F. Rúnarsson, á svið. Elvar var veislustjóri kvöldsins, en hann og Rúnar höfðu lagt mikla vinnu í að semja skemmtilega texta um ýmislegt í félagsstarfinu og var engin grein eða deild þar undanskilinn. Frábær skemmtun í boði þeirra félaga. Stelpurnar í meistaraflokki í hokkí stigu einnig á svið með frumsamdan texta og slógu í gegn með hnyttnum skotum á strákana - sungu smávegis um titla og hvernig best er að ná í þá. Ein úr hópnum, Þorbjörg Eva Geirsdóttir, mætti svo ein á sviðið og söng frábærlega eitt lag við undirleik Rúrars Eff.

Nokkrar af elstu stelpunum í listhlaupinu höfðu tekið sig til og framleitt eitt stykki bíómynnd (reyndar suttmynd) þar sem spaugað var með samvinnu, samspil og togstreitu á milli íþróttagreinanna og deildanna í félaginu. Bráðskemmtilegt myndband þar á ferð og komu þar ýmsir á óvart með frábærum leik og tilþrifum í íþróttagreinum félagsins.

Heiðursviðurkenningar

Sigurður Sveinn Sigurðsson, formaður SA, veitti nokkrum félögum viðurkenningar fyrir farsælt og áralangt starf í þágu félagsins. Reyndar voru flestir þeirra sem átti að heiðra fjarverandi, en væntanlega verða gullmerki félagsins afhent þeim á aðalfundi í vor. Þeir voru hins vegar mættir bræðurnir Jón, Davíð og Héðinn Björnssynir. Jón var gerður að heiðursfélaga SA, og er hann sá tíundi í röðinni. Davíð og Héðinn fengu gullmerki félagsins. Jafnframt var tilkynnt um nokkra í viðbót sem veitt verður gullmerki félagsins á aðalfundi þess í vor.

Viðurkenningar Listhlaupsdeildar

Þrjár stúlkur úr Listhlaupsdeildinni voru heiðraðar fyrir góðan árangur. Emilía Rós Ómarsdóttir var verðlaunuð fyrir mestar framfarir, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir var verðlaunuð fyrir góðan árangur og þá var Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir krýnd Akureyrarmeistari í listhlaupi, en Akureyrarmótið fór fram í byrjun mánaðarins.

Viðurkenningar Hokkídeildar

4. flokkur:
Mestu framfarir: Davíð Hafþórsson
Mesta fyrirmyndin: Matthías Már Stefánsson
Mikilvægasti leikmaðurinn: Róbert Andri Steingrímsson

3. flokkur:
Mestu framfarir: Andri Már Ólafsson
Mesta fyrirmyndin: Ólafur Sigurðsson
Mikilvægasti leikmaðurinn: Hafþór Andri Sigrúnarson

Mfl. karla:
Mestu framfarir: Ingþór Árnason
Mesta fyrirmyndin: Guðmundur Snorri Guðmundsson
Mikilvægasti leikmaðurinn: Andri Már Mikaelsson

Mfl. kvenna:
Mestu framfarir: Eva María Karvelsdóttir
Mesta fyrirmyndin: Íris Hafberg
Mikilvægasti leikmaðurinn: Anna Sonja Ágústsdóttir

Einstaklega vel heppnuð hátíð

Að öllu þessu sögðu er niðurstaðan sú að Afmælis- og árshátíð SA 2012 hafi heppnast einstaklega vel. Væntanlega hittist betur á hjá hokkístrákunum á næsta ári - og vonandi fáum við einnig fleiri félaga úr Krulludeild með á næstu árshátíð.

Nú er bara spurningin hvort ekki ætti að fastsetja þessa hátíð á miðvikudeginum fyrir páska - þannig geta félagsmenn allir gert ráð fyrir henni á þeim degi. Sameiginleg árshátíð félagsins með góðri mætingu frá öllum deildum getur ekki gert neitt annað en að efla og auðga félagið og félagsstarfið.