Karfan er tóm.
Það voru gömlu brýnin í Ásynjum sem höfðu betur í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í Skautahöllinni á Akureyri í gærkvöldi, sunnudagskvöld. Það voru þó Ynjur sem byrjuðu leikinn betur, Hilma átti skot framhjá, Ynjur héldu pekkinum og héldu áfram í sókn sem endaði með því að Silvía skoraði eftir aðeins rúmar tvær mínútur. Stoðsendingu átti Sunna. Þegar lotan var rúmlega hálfnuð áttu Ásynjur harða sókn og mikil þvaga myndaðist fyrir framan mark Ynja og það var Anna Sonja sem kom pekkinum að lokum í markið eftir góða sendingu frá Guðrúnu Marín. Staðan 1-1. Í lok lotunnar hrundi svo leikur Ynjanna og Ásynjur bættu tveimur mörkum við, fyrst speglaði Hrund pökkinn í markið og síðan sló Birna hann í markið stuttu síðar. Dómararnir tóku sér þá tíma til að ráða ráðum sínum þar sem spurning var hvort Birna hafi verið inn í krísunni en ákvörðunin var sú að markið hefði verið löglegt. Staðan 1-3 og þannig var staðan eftir fyrstu lotu.
Ynjurnar komu sterkari inn í næstu lotu og áttu nokkur mjög góð skot að marki Ásynja. Þær voru óheppnar að skora ekki en það var Díana sem skoraði fjórða mark Ásynja þegar hálf mínúta var eftir af lotunni og öruggur sigur þeirra blasti við.
Ásynjur komu inn í þriðju lotuna ákveðnar í að halda fengnum hlut og pökkuðu í vörn. Ynjurnar nýttu sér það og sóttu nánast án afláts. Eftir um fimm og hálfa mínútu fékk Birna dóm og Ynjurnar stilltu upp í powerplay. Þær misstu pökkinn og Ásynjur komust í sókn en Berglind Rós hirti pökkinn í varnarsvæði Ynjanna, skautaði upp og skilaði pekkinum í markið. Staðan 2-4. Fljótlega eftir það fór Sarah í boxið og þá var það Teresa sem negldi pökkinn í mark Ásynja og munurinn allt í einu orðinn eitt mark. Lengra komust þær þó ekki þrátt fyrir góðar tilraunir og titillinn var Ásynja.
Leikmenn beggja liða virtust varkárir í byrjun leiks en Ásynjur virtust grimmari og ákafari í að landa titilinum. Þær hafa oft leikið fáliðaðar en mættu nú til leiks með nærri heila línu af liðsauka meðan þriðja lína Ynjanna er skipuð ungum leikmönnum á sínu fyrsta eða öðru ári í meistaraflokki. Það sýnir kannski hversu breiðan hóp félagið hefur af góðum leikmönnum í kvennahokkíinu og gefur fyrirheit um bjarta framtíð. Fjöldi áhorfenda á leiknum gefur líka góðar vonir um að áhugi á kvennahokkí sé að aukast.
Bart Moran, þjálfari Ásynja, sagði að leikurinn hefði verið gríðarlega skemmtilegur og að góð byrjun Ásynja hefði dugað þeim til að landa titlinum, þrátt fyrir góðar tilraunir Ynjanna til að ná að jafna. Jussi Sipponen, þjálfari Ynja, sagðist bara vilja óska Ásynjum til hamingju með sigurinn og titilinn, þær hefðu átt hann skilið. Í dag, mánudag, leggur svo lunginn úr hópnum af stað til Spánar þar sem þær taka þátt í HM. Óskum við þeim góðs gengis þar.
Mörk (stoðsendingar) Ynja: Silvía 1, Berglind 1, Teresa 1, Sunna (1) og Ragga (1)
Mörk (stoðsendingar) Ásynja: Anna Sonja 1, Hrund 1, Birna 1, Díana 1, Guðrún Marín (2), Eva (2), Sarah (1), Arndís (1) og Alda (1)