Ásynjur sigruðu eftir framlengingu

Mynd: Elvar Freyr Pálsson (24.01.2012)
Mynd: Elvar Freyr Pálsson (24.01.2012)


Jöfnunarmark Ynja á lokamínútunni dugði þeim ekki því Ásynjur áttu síðasta orðið í æsispennandi framlengingu. 

Leikir þessara liða eru ávallt jafnir og spennandi, bjóða upp á dramatík og óvænt atvik. Skortur á áhorfendum veldur því vonbrigðum því það er sannarlega góð skemmtun að fylgjast með þessum liðum á svellinu.

Ásynjur heldur sterkari í fyrri hluta leiks
Fyrsti leikhlutinn einkenndist ekki af mörgum góðum færum, en þó voru Ásynjur heldur hættulegri upp við markið ef eitthvað var.

Tvær refsingar á leikmenn Ynja skiptu sköpum í fyrsta leikhlutanum því Ásynjur voru tveimur fleiri þegar þeim tókst að brjóta ísinn og skora fyrsta markið. Það gerði Jónína Guðbjartsdóttir eftir rúmlega 13 mínútna leik, með stoðsendingum frá Hrund Thorlacius og Guðrúnu Kristínu Blöndal.

Ásynjur sóttu síðan stöðugt í upphafi annars leikhluta og það skilaði loks marki eftir rúmar fimm mínútur þegar Guðrún Blöndal skoraði með stoðsendingu frá Katrínu Ryan. Ynjur efldust nokkuð eftir það og upp úr miðjum öðrum leikhluta minnkaði Diljá Sif Björgvinsdóttir muninn í 1-2 með stoðsendingu frá Kristínu Björgu Jónsdóttur.

Afdrifaríkur og umdeildur dómur
Undir lok annars leikhluta fékk Diljá síðan afdrifaríkan - og umdeildan - dóm, tveggja mínútna brottvísun og tíu mínútna persónulegan dóm. Það þýddi að hún var í boxinu út annan leikhluta og rúmlega sex mínútur inn í þann þriðja. Einum fleiri náðu Ásynjur að auka forystuna á ný þegar Hrund Thorlacius skoraði með stoðsendingu Guðrúnar Kristínar Blöndal.

Ynjur gáfust ekki upp
En leikurinn var ekki búinn, nóg eftir á klukkunni og Ynjur efldust og bættu heldur í það sem eftir lifði leiks. Þegar sjö og hálf mínúta voru til leiksloka minnkuðu þær muninn í 2-3. Silja Rún Gunnlaugsdóttir skoraði þá með stoðsendingu frá Védísi Áslaugu Beck Valdemarsdóttur og Silvíu Rán Björgvinsdóttur.

Þegar skammt var eftir tók Lars Foder, þjálfari Ynja, leikhlé. Við vitum ekki hvað var lagt upp með þar eða hvort það skilaði marki, en á lokamínútunni náðu Ynjur að jafna leikinn þegar Diljá Sif Björgvinsdóttir skoraði með glæsilegu skoti fyrir utan, eftir stoðsendingu Silvíu Ránar.

Meira eftir á tankinum hjá Ynjum
Leiktíminn rann út og enn jafnt, 3-3, og því var gripið til framlengingar. Ynjur hófu framlenginuna einni færri því þær fengu refsingu á lokasekúndu venjulegs leiktíma. Þær náðu þó að halda þrátt fyrir liðsmuninn og minnstu munaði að pökkurinn hreinlega læki í markið hjá Ásynjum þegar um þrjár og hálf mínúta var liðin af framlengingunni. Markvörður Ásynja var þá að taka á móti lausri sendingu en missti af pökknum sem stöðvaðist alveg við marklínuna og þaðan kom hún honum burtu.

Ynjur sóttu áfram af krafti og virtust eiga heldur meira eftir á tankinum en Ásynjur í framlengingunni, og voru reyndar með aðeins fjölmennari hóp þannig að það gæti hafa sagt til sín á lokamínútunum.

Reynsluboltarnir kláruðu
Áfram hélt spennan og loks þegar rúmar sjö mínútur voru liðnar af framlengingunni kom úrslitamarkið og má segja að þar hafi verið reynsluboltar á ferð. Birna Baldursdóttir skoraði þá fyrir Ásynjur með stoðsendingu frá Guðrúnu Kristínu Blöndal og Jónínu Guðbjartsdóttur.

Leikur Ynja og Ásynja var hörkuleikur og endaði í mikilli spennu á lokamínútunum og í framlengingu, jafn og æsispennandi allt til loka. Sigurinn hefði raunar getað fallið hvoru megin sem var og eiga Ynjur hrós skilið fyrir að gefast ekki upp þegar á móti blés. Þær héldu áfram að berjast og náðu að jafna leikinn og fengu tækifæri til að klára með marki, en það féll þó Ásynja megin í þetta skiptið.

Eins og sjá má á tölfræðinni hér að neðan fengu Ynjur mun fleiri refsingar en Ásynjur í leiknum. 

Einu getum við lofað: Næsti innbyrðis leikur þessara liða verður einnig æsispennandi, en hann er reyndar ekki á dagskrá fyrr en á næsta ári.

Mörk/stoðsendingar
Ynjur
Diljá Sif Björgvinsdóttir 2/0
Silja Rún Gunnlaugsdóttir 1/0
Kristín Björg Jónsdóttir 0/1
Védís Áslaug Beck Valdemarsdóttir 0/1
Silvía Rán Björgvinsdóttir 0/1
Refsingar: 24 mínútur
Varin skot: 32 (8+9+15) 

Ásynjur
Guðrún Kristín Blöndal 1/3
Jónína Guðbjartsdóttir 1/2
Hrund Thorlacius 1/1
Birna Baldursdóttir 1/0
Katrín Ryan 0/1
Refsingar: 2 mínútur
Varin skot: 10 (3+2+5) 

Næstu leikir í meistaraflokki kvenna verða laugardaginn 1. desember þegar Ynjur fara suður og mæta Birninum og svo laugardaginn 8. desember þegar Ásynjur fá SR í heimsókn.