Karfan er tóm.
Í gærkvöld fór fram toppslagur í Hertz-deild kvenna í íshokkí þegar Ásynjur og Ynjur mættust í hörkuleik í Skautahöllinni á Akureyri. Leikurinn var nokkuð jafn en Ásynjur báru sigur úr bítum, 4-2. Varnarmaður Ásynja, Guðrún Marín Viðarsdóttir var með þrennu í leiknum og markmaðurinn Guðrún Katrín Gunnarsdóttir átti hreint stórleik milli stanganna á móti sterkum skotmönnum Ynja.
Ásynjur byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 3-0 strax í fyrstu lotu. Fyrsta markið var skorað á 6. mínútu þegar liðið var manni fleiri á ísnum og var þar á ferðinni Guðrún Marín eftir fallega sendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur þvert yfir ísinn. Annað markið kom tveimur mínútum síðar og var ekki síður fallegt því það kom beint úr dómarakasti í sóknarsvæði Ásynja. Jónína Margrét Guðbjartsdóttir vann pökkinn aftur á varnarmanninn Arndísi Eggerz sem sendi langa sendingu yfir á hinn varnarmanninn, Thelmu Maríu Guðmundsdóttur, sem átti þrumuskot í þaknetið á marki Ynja og kom Ásynjum í 2-0. Guðrún Marín bætti svo við þriðja markinu þegar innan við mínúta var eftir af lotunni eftir stoðsendingu frá Jónínu og Ásynjur gengu því til fyrsta leikhlés með þægilegt 3-0 forskot.
Ynjur komu sterkari til baka í 2. lotu og áttu fleiri skot á mark í þeirri lotu en þar kom markmaðurinn Guðrún Katrín sterk inn fyrir Ásynjur. Samt sem áður voru það Ásynjur sem skoruðu snemma í lotunni og var þar enn og aftur á ferðinni varnarmaðurinn Guðrún Marín sem fullkomnaði þrennu sína, nú með stoðsendingu frá Guðrúnu Blöndal. Ynjur nýttu sér það í lok lotunnar að vera manni fleiri á ísnum en þar var á ferðinni fyrirliðinn Ragnhildur Kjartansdóttir eftir stoðsendingu frá Kolbrúnu Maríu Garðarsdóttur. Staðan í leikhléi því 4-1 og Ásynjur héldu forskotinu.
Mikill hiti var í leiknum í þriðju lotu og þurftu einhverjir að kæla sig niður í refsiboxinu. Eina mark lotunnar leit dagsins ljós þegar rúmar 6 mínútur voru eftir af leiknum og var það Silvía Björgvinsdóttir sem minnkaði muninn fyrir Ynjur eftir stoðsendinu frá Kolbrúnu Garðarsdóttur þegar Ynjur voru manni fleiri. Ynjur pressuðu mikið á mark Ásynja í lok leiksins og tóku m.a. markmanninn Birtu Þorbjörnsdóttur úr markinu til að bæta leikmanni í sóknina. Þær uppskáru reyndar annað mark sem var dæmt af vegna þess að leikmaður Ynja stóð ólöglega inni í markteig Ásynja. Það gekk því mikið á undir lok leiksins en Ásynjur stóðu uppi sem sigurvegarar í þessari síðustu viðureign liðanna í deildarkeppninni. Ásynjur hafa nú komið sér í nokkuð góða stöðu á toppi deildarinnar með 24 stig eftir 9 spilaða leiki. Ynjur koma þar á eftir með 21 stig eftir 10 leiki, Björninn í þriðja sæti með 4 stig eftir 8 leiki og SR situr á botni deildarinnar með 2 stig.
Ásynjur halda svo suður yfir heiðar næstkomandi laugardag til að etja kappi við Björninn. Leikurinn fer fram í Egilshöll kl. 18:50, eða eftir að 3. flokks leik SA og Bjarnarins líkur.
Mörk/stoðsendingar Ásynja:
Guðrún Marín Viðarsdóttir 3/0
Thelma María Guðmundsdóttir 1/0
Anna Sonja Ágústsdóttir 0/2
Jónína Margrét Guðbjartsdóttir 0/2
Guðrún Blöndal 0/2
Arndís Eggerz 0/1
Eva María Karvelsdóttir 0/1
Refsingar Ásynja:
16 mínútur
Mörk/stoðsendingar Ynja
Ragnhildur Kjartansdóttir 1/0
Silvía Rán Björgvinsdóttir 1/0
Kolbrún María Garðarsdóttir 0/2
Refsingar Ynja:
6 mínútur