Átta frá SA í U-18 landsliði Íslands sem hefur leik á HM í dag

Átta leikmenn frá SA eru hluti af U-18 landsliði Íslands sem keppir á Heimsmeistaramótinu í íshokkí 3. deildar sem haldið er í Sófíu í Búlgaríu. Fyrsti leikur liðsins er í dag þegar liðið mætir heimaliðinu Búlgaríu. Leikurinn hefst kl. 20.00 á staðartíma sem er kl. 18.00 á íslenskum tíma og má sjá í beinni útsendingu hér. Fylgjast má með dagkrá mótsins og tölfræðinni hér.

Mótherjar Íslands í mótinu eru Búlgaría, Nýja-Sjáland, Tyrkland, Mexíkó og Ísrael. Ísland er efsta liðið samkvæmt styrkleikaröðun en Ísland féll niður úr 2. deild í fyrra. Hin liðin eru nokkuð jöfn að styrkleika og því fyrirfram allir leikir mikilvægir til þess að liðið komist aftur upp í 2. deild. 

SA leikmenn í liðinu í ár:

Axel Snær Orongan

Baltasar Ari Hjálmarsson

Gunnar Aðalgeir Arason

Hinrik Örn Halldórsson

Helgi Þór Ívarsson

Heiðar Gauti Jóhannsson

Róbert Máni Hafberg

Unnar Hafberg Rúnarsson

Af þessum átta spila fjórir erlendis nú um mundir með félagsliðum í Svíþjóð og N-Ameríku en það eru þeir Axel, Gunnar, Róber og Unnar. Það má þó nánast segja að SA leikmennirnir séu níu því Atli Þór Sveinsson sem búsettur hefur verið í Þýskalandi síðastliðin ár og leikið með Eisbaren Berlin var hjá SA á sínum uppvaxtarárum og spilar einnig í mótinu í ár og það í fyrsta sinn fyrir íslenskt landslið.

Áfram Ísland!

 

Á myndinni eru þeir Hinrik, Baltasar, Axel, Heiðar, Helgi og Gunnar við brottförina frá Akureyri.